Ekki sú Kate Middleton...

Kate Middleton, sú sem er að fara að gifta sig …
Kate Middleton, sú sem er að fara að gifta sig á föstudag. Reuters

Kate Middleton nýtur verulegrar athygli um þessar mundir enda er konunglegt brúðkaup í vændum í Bretlandi. Því hafa ýmsir velt því fyrir sér hvers vegna Kate sé að afgreiða í reiðhjólaverslun í Boston í Bandaríkjunum.

Sú Kate Middleton er raunar ekkert á þeim buxunum að tengjast bresku konungsfjölskyldunni og hefur heldur engan áhuga á að þykjast vera bresk, þótt fréttamenn hafi komið inn í verslunina og beðið hana um að taka með breskum hreim.

„Ég hef í raun engan áhuga á að þykjast vera bresk," segir Middleton, sem er frá Louisville í Kentucky. „Og ég hef heldur ekki áhuga á að þykjast vera hin Kate Middleton svo ég neitaði öllum fimm beiðnunum um að tala með breskum hreim."

Ruglingurinn hófst þegar í janúar þegar Middleton reyndi að fara inn á Facebook-síðu sína og komst að því að búið var að loka síðunni þar sem vefstjórar Facebook héldu að skráningin væri fölsuð.   

Kate sendi Facebook tölvupóst og sagðist vissulega heita Kate Middleton. Gæti hún vinsamlegast fengið aðgang að síðunni aftur. Hún komst einnig að raun um, að Facebook hafi aftengt allar myndirnar hennar. Hún fékk þó aðgang að síðunni á ný viku síðar.  

Þetta er ekki eina dæmið um að Facebook hafi lokað tímabundið á síður notenda sem heita Kate Middleton í aðdraganda brúðkaupsins í Lundúnum. Að minnsta kosti þremur öðrum alnöfnum prinsessunnar væntanlegu, einni ástralskri og tveimur breskum, hefur verið vísað frá Facebook en fengið aðgang að nýju eftir að þær gátu sannað, að þær heita í raun Kate Middleton.

Hin bandaríska Kate Middleton segir, að þótt hún sé ekkert skyld nöfnu sinni í Bretlandi eigi þær tvennt sameiginlegt. „Við erum báðar dökkhærðar," sagði hún brosandi.  „Við erum báðar augnayndi."

Hún sagðist nota lætin sem tengjast nafni hennar til að vekja athygli á hjólreiðaferð, sem hún ætlar að fara í júlí frá Boston til Provincetown á enda Þorskhöfða  til að afla fjár til góðgerðarmála. Kate lofar því, að takist henni að safna 10 þúsund dölum muni hún hjóla á tvímenningsreiðhjóli klædd brúðarkjól ásamt einhverjum sem lítur út eins og Vilhjálmur prins.  


mbl.is
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú heldur af þér með að gera eitthvað. Leyfðu sjálfstraustinu að njóta sín, því það er þitt bezta vopn.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú heldur af þér með að gera eitthvað. Leyfðu sjálfstraustinu að njóta sín, því það er þitt bezta vopn.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar