Vilhjálmur Bretaprins og Kate Middleton, sem gengu í það heilaga í Lundúnum í gær, skemmtu sér fram eftir nóttu í Buckingham-höll ásamt um 300 nánum vinum og ættingjum. En þar var haldið kvöldverðarboð.
Middleton, sem er nú orðin hertogaynja af Cambridge, var klædd í hvítan kvöldkjól sem Sarah Burton hannaði, en hún hannaði einnig brúðarkjólinn.
Talið er að hjónin nýbökuðu muni fara í brúðkaupsferð síðar í dag. Að sögn breska ríkisútvarpsins er hins vegar ekki búið að greina opinberlega frá fyrirætlunum þeirra.
Karl Bretaprins stóð fyrir veisluhöldunum í gærkvöldi. Talið er að Harry Bretaprins, sem var svararmaður bróður síns, Michael Middleton, faðir Kate, hafi haldið ræðu.