Gagnrýnendur kvikmyndatímarita og blaða eru farin að birta umfjöllun sína um Eldfjall sem var frumsýnd í gær á kvikmyndahátíðinni í Cannes. Óhætt er að segja að viðtökurnar séu mjög góðar.
Screen Daily segir myndina einfalda og elegant. Gagnrýnandi Variety segir myndina fjalla um gamlan og úrillan mann sem fer á eftirlaun og finnst sem tómið bíði sín. En óvænt slys, sem eiginkona hans lendir í, verði til þess að hann þurfi að læra hvað skiptir máli í lífinu.
„Með úthugsuðum persónum og tón í myndinni, sem er ekki ólíkur tónum Mike Leigh og Ken Loach, þá sýnir þetta realíska drama að einlægt kynlíf þarf ekki að vera ómögulegt með aldrinum. Þótt það að upplifa óvirðuleika ellinnar sé ekki fyrir alla," segir gagnrýnandi Variety.
Gagnrýnandi Screen segir myndina afbragð og að aðdáunarverður sé kraftmikill leikur Theodórs Júlíussonar í hlutverki Hannesar, „sem finnur ástæðu til að lifa á erfiðasta tíma lífs síns."
Aðalleikarar myndarinnar sáu myndina fyrst á heimsfrumsýningunni í Cannes í gær og var glatt á hjalla hjá þeim eftir myndina í veislu sem framleiðendurnir héldu þeim til heiðurs.
Þórir Snær, einn framleiðenda myndarinnar, er að vonum ánægður með umfjöllunina og aðspurður segist hann ekki vita hvaða þýðingu svona gagnrýni hefur fyrir myndina.
„Það er svo langt síðan ég hef verið með mynd sem fær svona góða gagnrýni að ég man það ekki hvaða áhrif þetta hefur. En maður vonast til að muni auka möguleika á því að hún seljist víða. Við erum búnir að sjá gagnrýni frá Screen Daily og Variety og mér skilst að gagnrýni komi frá Hollywood Reporter í dag og þá er heilaga þrenningin búin að skila áliti sínu, þannig að við erum þegar mjög ánægð með viðtökurnar.