Kínverskur bóndi sem gerði misheppnaða tilraun með vaxtarörvandi efni á melónuakur sinn segist ekki geta sofið eftir að hann sá melónurnar springa á akrinum. Hefur málið vakið athygli á vafasömum vinnubrögðum í kínverskum landbúnaði.
Bóndinn Liu Mingsuo notaði efnið forchlorfenuron á melónuakur sinn í austurhluta landsins til þess að freista þess að auka framleiðni sína. Missti hann þrjá hektara af uppskeru sinni í kjölfar tilraunarinnar.
„Þann 7. maí kom ég út og taldi áttatíu melónur sem voru að springa en síðdegis voru þær orðnar hundrað. Tveimur dögum síðar reyndi ég ekki einu sinni að telja þær lengur. Breska blaðið The Guardian segir frá þessu.
Hefur málið vakið athygli í kínverskum fjölmiðlum sem hafa undanfarið beint sjónum sínum að vinnubrögðum í landbúnaði í landinu og fæðuöryggi.
Nýlega fannst þungmálmurinn kadmíum í hrísgrjónum, eiturefnið melamine í mjólk, arsenik í sojasósu og bleikiefni í sveppum. Þá fannst hreinsiefnið botax í svínkjöti sem átti að láta það líkjast nautakjöti.
Segja fjölmiðlar að melónur bóndans hafi sprungið vegna þess að hann hafi úðað ávexti sína of seint og í votviðri. Það valdi því að melónurnar springi eins og jarðsprengjur. Efnið sem bóndinn notaði aðskilji frumur í ávextinum en þær verði oft undarlegar í laginu af því og fræin verði hvítleit.