Þegar Lars fór yfir strikið

Angelina Jolie og Brad Pitt í Cannes vegna myndarinnar The …
Angelina Jolie og Brad Pitt í Cannes vegna myndarinnar The Tree of life an Brad leikur þeirri mynd. mbl.is/Halldór Kolbeins

Cannes-hátíðinni er þá loksins lokið og er þetta búið að vera mikil veisla. Flestir eru sammála um að myndirnar á hátíðinni hafi verið einstaklega góðar þetta árið.

Bíómyndin Tree of Life fékk gullpálmann í Cannes og er hún eftir hinn sérvitra bandaríska leikstjóra Terrence Malick. Myndin fjallar um ellefu ára snáða í miðríkjum Bandaríkjanna og harðneskjulegan föður hans sem Brad Pitt leikur. Myndin fékk mjög misjafna dóma, annaðhvort hefur fólk hana upp til skýjanna eða rakkar hana niður.

Malick er sérlundaður og fer alla jafna ekki í viðtöl. Hann gerði nokkrar bíómyndir í byrjun áttunda áratugarins en lét sig síðan hverfa af sjónarsviðinu í tuttugu ár og bjó um tíma í París. Sem sumir segja hluta af ástæðunni fyrir því að Frakkar hafa miklar mætur á honum. Ofan á andúð sína á athygli og viðtölum er hann yfirleitt dulur um efni mynda sinna fram að frumsýningu og margir gruna hann um tilgerð, að hann hagi sér svona í von um að andúð hans á fjölmiðlum veki meiri áhuga þeirra á honum en ella.

Margar aðrar myndir í keppninni hefðu verið vel að verðlaununum komnar en fengu þau ekki. Myndir einsog Drive þar sem Ryan Gosling leikur aðalhlutverkið en leikstjóri hennar Nicholas Refn fékk verðlaun fyrir leikstjórnina í þeirri mynd.

Þá þótti mynd Pedró Almódóvars góð en hann hefur snúið sér að þrillerum og er þetta fyrsta mynd hans í þeim flokki en hún fjallar um lýtalækni í hefndarhug vegna andláts dóttur sinnar sem Antonio Banderas leikur. Þess má geta að þessi mikli sjarmör brosir ekki í eitt einasta skipti í myndinni og minnist ég þess ekki að hafa séð hann í heilli bíómynd án þess að leikstjórinn notaðist við hið sjarmerandi bros kvennagullsins frá Spáni.

Melancholia er ný og ansi góð mynd Lars von Triers en Kirsten Dunst sem á frábæran leik í myndinni fékk verðlaun sem besta leikkonan í aðalhlutverki en karakter hennar er svo langt frá hlutverki hennar í Spiderman myndinni að manni bregður. Lars hefur gott lag á því að ná fram algjörlega nýju sjónarhorni á þekktar leikkonur og nægir þar að nefna Emily Watson, Nicole Kidman og Charlotte Gainsbourg.

Athyglissýkin

Lars von Trier stal samt senunni með öðru en bíómyndinni sinni, því ummæli hans um að hann væri nasisti settu hátíðina á annan endann í marga daga. Danskur kollegi minn sagði að starf hans hefði samstundis orðið einsog stríðsfréttamanns, þar sem hann færði stöðugt nýjar fréttir af yfirlýsingum og átökum vegna ummælanna þangað til búið var að reka Lars af hátíðinni.

Lars von Trier hefur verið fastaáskrifandi Cannes-hátíðarinnar en nánast allar myndir hans hafa verið valdar til keppni á þessari einni virtustu hátíð kvikmyndanna. Hann hefur alltaf sjokkerað eða móðgað fólk á hátíðinni. Þegar hann vann keppnina með bíómyndinni Dancer in the dark lítillækkaði hann formann dómnefndarinnar, Roman Polanski, í þakkarræðu sinni.

Fyrir tveimur árum þegar hann var hér með Antichrist myndina sína lýsti hann því yfir að hann væri besti leikstjóri í heiminum. Meira að segja þegar hann kom með sína fyrstu mynd á hátíðina, Element of Crimes, þá sjokkeraði hann fólk þegar hann lýsti kvikmyndagerð sinni sem sjálfsfróun á hvíta tjaldið.

En þegar hann lýsti því yfir á blaðamannafundi í síðustu viku að hann væri nasisti þá náði hann því sem enginn annar kvikmyndagerðarmaður hefur náð í 64 ára sögu hátíðarinnar að yfirnefndin lýsti hann „persona non grata“ og rak hann á brott. Við sem vorum þarna föttuðum ekki öll hversu svakaleg viðbrögðin myndu verða við þessum ummælum.

Maður fann til með leikkonum hans sem sátu honum á vinstri og hægri hönd, þeim Kirsten Dunst og Charlotte Gainsbourg sem roðnuðu og blygðuðust sín þegar Lars sagði þetta. Þess má geta að Dunst er af þýskum ættum og Gainsbourg er komin af rússneskum gyðingum.

Sumir segja að þetta hafi bara farið einsog Lars vildi, hann fékk athyglina sem hann þráir. En dreifingaraðilar hans eru ekki eins ánægðir enda gyðingar með þónokkur völd í kvikmyndabransanum og mörgum samningum um kaup á myndinni hefur verið rift og dreifing hennar mun þrátt fyrir athyglina ekki verða eins mikil og ætlað var. Frumsýningarpartíið hans var meira að segja afboðað, því gyðingar eiga staðinn við ströndina þar sem halda átti veisluna. Þannig að engin var veislan og hann var settur upp í bíl og sendur aftur heim til Danmerkur.

Lars Von Trier með Kirsten Dunst og Charlotte Gainsbourg í …
Lars Von Trier með Kirsten Dunst og Charlotte Gainsbourg í Cannes. Reuters
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Veltu þér ekki upp úr því þótt eitthvað fari úr skorðum í dag. Láttu stoltið ekki hindra þig í að ná sáttum við nágrannann.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Birgitta H. Halldórsdóttir
2
Birgitta H. Halldórsdóttir
3
Sarah Morgan
4
Solja Krapu-Kallio
5
Karin Härjegård
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Veltu þér ekki upp úr því þótt eitthvað fari úr skorðum í dag. Láttu stoltið ekki hindra þig í að ná sáttum við nágrannann.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Birgitta H. Halldórsdóttir
2
Birgitta H. Halldórsdóttir
3
Sarah Morgan
4
Solja Krapu-Kallio
5
Karin Härjegård