Bandaríska hljómsveitin Eagles kom til landsins í gær en hún heldur tónleika í Laugardalshöll annað kvöld. Herma heimildir Morgunblaðsins að sumir hljómsveitameðlima hafi komið með fjölskyldur sínar með sér til landsins.
Sumir nýttu tækifærið og skoðuðu borgina og nágrenni hennar. Einhverjir fóru í Bláa Lónið og hópurinn snæddi svo saman á ónefndum veitingastað í miðbænum.
Að sögn eru þeir afar ánægðir með dvölina og eru spenntir fyrir tónleikunum annað kvöld. Húsið verður opnað klukkan 18:30 og munu þeir Magnús og Jóhann stíga á svið klukkan átta.
Klukkustund síðar telja Eagles svo í, eflaust við mikla eftirvæntingu aðdáenda sinna. Hljómsveitin tók tveggja klukkustunda langa æfingu í gær en tónleikarnir í Laugardalshöllinni eru þeir fyrstu á ferðalagi sem lýkur í Las Vegas í október.