Ævintýramaðurinn Bear Grylls og leikarinn Jake Gyllenhaal kanna íslensk fjöll, jökla og eldfjallasvæði í nýrri þáttaröð Man vs. Wild sem sýnd er á Discovery Channel. Félagarnir voru staddir hér á landi í apríl sl. við tökur á þætti þar sem Gyllenhaal er gestastjarna.
Áætlað er að þátturinn verði sýndur þann 8. júlí næstkomandi.
„Fyrir mér snýst allt um uppgötvanir,“ segir Gyllenhaal, sem tilnefndur hefur verið til Óskarsverðlauna, en nýlega lék hann aðalhlutverkið í spennumyndinni Source Code.
Gyllenhaal telur að þegar fólk takist á við líf í óvarinni náttúru afhjúpist mörg persónueinkenni, bæði líkamleg og andleg.
Bear Grylls mun taka aðra þætti upp í Nýja Sjálandi og Utah.
Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Grylls fær frægan leikara til liðs við sig.
Will Ferrel fór með honum til norðurhluta Svíþjóðar árið 2009 þar sem þeir vörðu tveimur dögum við erfiðar vetraraðstæður og átu þeir meðal annars hreindýraaugu.