Albert II prins af Mónakó og Charlene prinsessa, sem er ættuð frá Suður-Afríku, létu vígjast kirkjulegri hjónavígslu í dag að viðstöddum 800 tignum og frægum gestum. Þau voru gefin saman borgaralega í gær.
Brúðurin var klædd í silkikjól frá Armani. Í hann fóru 130 metrar af silki og var kjóllinn skreyttur 40.000 kristöllum. Bernard Barsi erkibiskup í Mónakó spurði hjónaefnin hvort þau ganga að því að eigast „í meðlæti og í mótlæti, í auðlegð og fátækt, í veikindum og heilbrigði, þar til dauðinn aðskilur.“ Bæði svöruðu með skýru „JÁ“.
Charlene var augljóslega ekki eins spennt við athöfnina í dag og i gær. Hún brosti við og við. Þau skiptust síðan á giftingarhringum sem smíðaðir eru úr 18 karata hvítagulli og platínu hjá House of Cartier.