Kvenfélagið í Biskupstungum gaf um mánaðarmótin júní/júlí út dagatal þar sem kvenfélagskonur koma fram á Evuklæðunum. „Það hefur lengi verið strípihneigð hérna í Tungunum,“ segir Svava Theódórsdóttir, kvenfélagskona.
Kvenfélagið lék sama leik fyrir tveimur árum og gaf út nektar-dagatal fyrir árið 2010. Fjárhæðin sem safnaðist við sölu dagatalsins var nýtt til að kaupa tæki fyrir íþróttamiðstöð. „Þetta er almenn fjáröflun í þetta sinn. Fjárhæðin er ekki eyrnamerkt,“ segir Svava. Hún bætir við að salan hafi komið á óvart til þessa enda hafi þær verið snemma á ferðinni.
„Langflestar myndirnar eru teknar á Brautarhóli en forsíðumyndin er tekin inni í Bjarnabúð í Reykholti í Biskupstungum.“
Hægt er að kaupa dagatalið í Bjarnabúð, Kaffi Gullfoss og á garn.is.