Meðal viðburða Menningarnætur í Reykjavík í dag eru tvennir tónleikar Sinfóníuhljómsveitar Íslands. Á seinni tónleikunum verður meðal annars fluttur Flautukonsert í D-dúr eftir Mozart, en einleikari í þeim konsert verður Stefán Ragnar Höskuldsson, sem starfað hefur sem flautuleikari við hljómsveit Metropolitan-óperunnar í New York síðustu ár og er fyrsti flautuleikari hljómsveitarinnar.
Stefán Ragnar hóf nám í flautuleik átta ára gamall hjá Bernharði Wilkinson, sem stýrir einmitt Sinfóníunni í kvöld. Stefán útskrifaðist frá Tónlistarskóla Reykjavíkur og stundaði framhaldsnám við Royal Northern College of Music. Fyrir rúmum áratug rakst hann á auglýsingu eftir flautuleikara hjá hljómsveitum í New York, fór í prufuspil hjá báðum og stóðst prófið. „Stuttu síðar sá ég auglýsingu frá Metroplitan-óperunni og ákvað að reyna fyrir mér þar og hef verið þar síðan.“
Stefán kemur hingað til lands á hverju ári. Hann er þó ekki á leið hingað alkominn, í bili að minnsta kosti. „Ég er í svo góðu starfi að það er erfitt að segja skilið við það. Ég vil þó endilega vera virkur í íslensku tónlistarlífi og þegar komið er svo æðislegt tónlistarhús sem Harpan er það mikil hvatning fyrir mig og aðra tónlistarmenn.“
Sinfóníuhljómsveit Íslands býður á tvenna ókeypis tónleika á vígsludegi Hörpu á Menningarnótt. Fyrri tónleikarnir, sem verða kl. 14.00, eru ætlaðir börnum, en þá heimsækir Maxímús Músikús hljómsveitina. Valur Freyr Einarsson er sögumaður og hljómsveitarstjóri er Bernharður Wilkinson.
Á seinni tónleikunum, sem hefjast kl. 17.00, verður síðan leikinn Flautukonsert í D-dúr eftir Mozart með Stefán Ragnar sem einleikara og þrjú hljómsveitarverk til viðbótar. Bernharður Wilkinson stjórnar Sinfóníuhljómsveitinni einnig á þeim tónleikum.
Ókeypis er á tónleikana eins og getið er og hægt að sækja aðgöngumiða í miðasölu Hörpu í dag, en byrjað er að afhenda miða tveimur tímum fyrir tónleika.