Kjartan Ragnarsson leikstjóri mun setja upp nýja leikgerð af Heimsljósi eftir Halldór Laxness í vetur. Verkið verður frumsýnt um jólin. Í dag hófst nýtt leikár í Þjóðleikhúsinu.
Í fréttatilkynningu segir að aðsókn að Þjóðleikhúsinu hafi verið mjög góð á síðasta ári og listrænn árangur mjög góður.
Dagskrá haustsins hefst með opnu húsi næstkomandi laugardag, 27. ágúst, klukkan 14:00-17:00, en opið hús er nú fastur liður í haustdagskrá leikhússins. Það verður mikið um að vera í Þjóðleikhúsinu þennan dag, þar sem gestum og gangandi verður boðið upp á grillaðar pylsur, fjölskyldudagskrá á sStóra sviðinu, söngperlur í Leikhúskjallaranum, kynnisferðir, andlitsförðun og margt fleira.
Þá sömu helgi, eða sunnudaginn 28. ágúst, verður fyrsta sýning leikársins á hinu geysivinsæla barnaleikriti Ballinu á Bessastöðum eftir Gerði Kristnýju og 2. september hefjast aftur sýningar á söngleiknum Bjart með köflum eftir Ólaf Hauk Símonarson.
Fyrsta frumsýning haustsins verður í Kassanum um miðjan september á nýju verki eftir margverðlaunaðan skáldsagnahöfund, Auði Övu Ólafsdóttur, en þetta er hennar fyrsta leikrit og nefnist Svartur hundur prestsins.
Haustsmellurinn á Stóra sviðinu verður ný endurfrumsýning á gamanleiknum Listaverkinu eftir Yasminu Reza í leikstjórn Guðjóns Pedersens, með þeim Hilmi Snæ Guðnasyni, Ingvari E. Sigurðssyni og Baltasar Kormáki í hlutverkum, en sýningin naut gífurlegra vinsælda á sínum tíma.
Hið kynngimagnaða verk Hreinsun eftir Sofi Oksanen kemur á svið í október, í leikstjórn Stefáns Jónssonar, og gengur Margrét Helga Jóhannsdóttir til liðs við Þjóðleikhúsið í þeirri sýningu.