Kvikmyndin Eldfjall eftir Rúnar Rúnarsson fékk kvikmyndaverðlaun kirkjunnar þegar þau voru veitt í sjötta sinn á RIFF í gær. Verðlaunin eru veitt vandaðri kvikmynd sem fjallar um mikilvægar tilvistar-, siðferðis- eða trúarlegar spurningar. Valið var milli tólf kvikmynda sem voru sýndar í hópnum Vitranir á hátíðinni.
Í rökstuðningi dómnefndar kirkjunnar segir:
„Eldfjall er raunsæ kvikmynd, borin uppi af sterkri sögu, góðum leik og styrkri leikstjórn.
Eldfjall er kvikmynd um ástina í sinni fjölbreyttustu og stundum óvæntustu mynd. Hún sýnir innilega ást og unað elskenda. Hún sýnir ábyrgðarfulla og fórnandi ást. Magnaðar nærmyndir mýkja hrjúfan mann og tengja áhorfanda við aðalpersónu.
Eldfjall er kvikmynd um fjölskylduna, um brotin og heil samskipti. Hún sýnir vonleysi og miðlar von. Hún miðlar nánd og pirringi, hlýju og kulda, gleði og sársauka.
Eldfjall er kvikmynd um ellina sem minnir á þörfina fyrir umhyggju og nærveru.
Eldfjall er kvikmynd sem skilur eftir spurningar og hvetur til samtals um mikilvæg efni.“
Eldfjall fékk einnig Fipresci-gagnrýnendaverðlaunin á hátíðinni í gær. Myndin er framlag Íslands til Óskarsverðlaunanna í ár. Hún er sýnd í kvikmyndahúsum um þessar mundir.
Rúnar Rúnarsson, leikstjóri og handritshöfundur, tók við verðlaunum. Hann er fæddur árið 1977. Hann útskrifaðist frá Danska kvikmyndaskólanum árið 2009. Eldfjall er hans fyrsta kvikmynd í fullri lengd, en stuttmyndir hans Smáfuglar, Anna og Síðasti bærinn hafa unnið fjölda alþjóðlegra kvikmyndaverðlauna.
Sögur fékk sérstaka viðurkenningu
Kvikmyndin Sögur sem eru aðeins til þegar við minnumst þeirra fékk sérstaka viðurkenningu dómnefndar kirkjunnar. Dómnefndin skrifaði um myndina:
„Sögur er vel gerð og seiðandi kvikmynd um nánd og samfélag. Hún sýnir söfnuð sem brýtur brauð í kirkju og við matarborð. Hún vitnar á einstakan hátt um hið hæga og kyrrláta samfélag sem stendur fast, gegn eirðarleysi og asasótt samtímans.“
Í dómnefnd kirkjunnar voru sr. Árni Svanur Daníelsson, sr. Elína Hrund Kristjánsdóttir, sr. Guðni Már Harðarson og Margrét Rós Harðardóttir