„Sem J.R. komst ég upp með allt; mútur, fjárkúganir og framhjáhöld. En nú náði krabbinn mér,“ segir leikarinn Larry Hagman í tilkynningu en hann berst nú við krabbamein. „Ég vil að allir viti að þetta er algeng tegund krabbameins og viðráðanleg,“ segir hann einnig.
Hagman er hvað frægastur fyrir að leika töffarann og óþokkamennið J.R. Ewing í kvöldsápunni Dallas og hefur ásamt Patrick Duffy og Lindu Gray, skrifað undir samning um framhald þáttanna en tökur hefjast á mánudag.
„Ég mun hefja meðferð á sama tíma og ég verð við tökur á nýju þáttaröðinni af Dallas. Ég get ekki hugsað mér betri stað til að vera á en við störf á þætti sem ég elska, með fólki sem ég elska. Og eins og við öll vitum, þá halda J.R. engin bönd!“
Þetta mun vera í annað sinn sem leikarinn greinist með krabbamein en það gerðist fyrst á níunda áratugnum. Hann þjáðist einnig af skorpulifur sem leiddi til lifrarígræðslu.
Nánar má lesa um málið á People.com.