Síminn hringdi hjá Steve Jobs, forstjóra Apple, síðla kvölds árið 1998. Á línunni var Bill Clinton, þáverandi forseti Bandaríkjanna, sem bað Jobs um að ráðleggja sér hvernig hann ætti að koma sér úr þeirri klípu, sem hann hafði komið sér í með lærlingnum Monicu Lewinsky.
„Ég veit ekki hvort þú gerðir það," sagði Jobs við Clinton, „en hafir þú gert það verður þú að segja þjóðinni frá því."
Það var þögn hinu megin á línunni.
Clinton hafði þá þrætt fyrir að hafa átt í kynferðislegu sambandi við Lewinsky en viðurkenndi síðar að hafa átt óviðurkvæmileg samskipti við hana. Öldungadeild Bandaríkjanna fjallaði í kjölfarið um hvort svipta ætti Clinton embætti fyrir meinsæri og hjónaband Clintons og Hillary, eiginkonu hans, hékk á bláþræði.
Sagt er frá samtali þeirra Jobs og Clintons í nýrri ævisögu Jobs, sem kom út í dag, þremur vikum eftir að hann lést. Fram kemur einnig, að Jobs bað Clinton síðar um að fá leikarann Tom Hanks til að tala inn á sjónvarpsauglýsingar Apple. Clinton neitaði.
Síðar bauð Jobs Clinton afnot af húsi, sem hann átti í Californíu, svo hann gæti heimsótt Chelsea dóttur sína, sem stundaði nám við Stanfordháskóla.
„Hann gaf mér ómetanlega gjöf: tækifæri til að hitta barnið mitt á meðan ég var enn afar opinber persóna," sagði Clinton við blaðið New York Post. „Svo ég hélt mikið upp á hann. Að auki kann ég að nota iPad."
Walter Isaacson, sem skrifaði ævisögu Jobs, var í viðtali í 60 Minutes fréttaþættinum á CBS sjónvarpsstöðinni í gærkvöldi. Hægt er að horfa á viðtalið á vef CBS.