Orð í belg: Grikkur eða gott mál?

Höfundur pistils.
Höfundur pistils.

Í hverju tölublaði Monitor skrifar blaðamaður pistla í liðnum ORÐ Í BELG. Pistlarnir fjalla um allt milli himins og jarðar og eru oftast hugvekjur í léttum dúr.

---

Meirihluti manna er trúlega sammála um að það sé gott að fara á gott mannamót. Líklega finnst flestum líka hin mesta skemmtun fólgin í því að klæða sig upp í búninga annað slagið. Að svo mæltu gefur augaleið að það hljóti að vera enn skemmtilegra að splæsa þessu tvennu saman, að fara á gott mannamót íklæddur búningi.

Ungmenni á Íslandi fá ýmis tækifæri til að klæðast búningum upp á gamanið. Hérlendis höldum við öskudaginn hátíðlegan, krakkar frá grunnskólaaldri upp í menntaskólaaldur mæta á furðufata- eða grímuböll í skólum auk þess sem algengt er að halda afmælisveislur eða annars konar partí þar sem gestgjafinn gefur út að yfir teitinu skuli vera einhvers konar þema sem krefst þess að gestir mæti í búningi. Svo virðist sem fólk nýti einfaldlega hvert fáanlegt tækifæri í að klæða sig upp og nýlegasta tækifærið er hrekkjavaka að bandarískum sið.

Sem fyrr segir þykir það almennt mikil skemmtun að fara í gott búningateiti og því er hrekkjavaka hin fínasta viðbót í skemmtanamenningu landans. Hin eina og sanna hrekkjavökuhátíð úti í heimi fór fram þann 31. október svo síðastliðin helgi var nýtt hérlendis í það að blása til „Halloween-partía“ úti um allan bæ. Það er ekki laust við að ég hafi orðið dálítið ringlaður, enda finnst mér eins og þessi tíska hafi verið töluvert meira áberandi í ár en til dæmis í fyrra, og ég veit að ég var ekki einn um að álykta svo. Þýðir þetta að hallóvín-hátíðin sé orðin viðurkennd hátíð á Íslandi?

Ekki einungis ruglaði þetta fár helgarinnar mig dálítið í ríminu heldur rifjaði þetta upp fyrir mér liðinn atburð. Fyrir tíu árum vildi svo til á rólegu virku kvöldi að dyrabjöllunni hjá mér var hringt. Í dyrunum blöstu við mér tvær grímuklæddar stelpur sem bunuðu út úr sér línunni „grikk eða gott?“. Mér krossbrá, jafnvel þótt ég hafi kannast vel við „trick or treat“-hefð hrekkjavökunnar. Ég skildi bara ekki hvers vegna þær voru að þessu á Íslandi árið 2001. Ég tjáði mömmu minni erindi stelpnanna en þurfti svo að útskýra fyrir stelpunum að við ættum ekkert nammi, enda bjuggumst við augljóslega ekki við þessari ósk. Ég náði þó rétt að líta ofan í poka stelpnanna og miðað við innihald hans að dæma var enginn nágrannanna undirbúinn heldur. Í pokanum var ekkert nema Mjólkurkexpakki og rúsínur.

Án alls efa var nammileiðangur þessara stelpna ekkert einsdæmi í Íslandssögunni, kannski gengu einhverjir krakkar húsa á milli í einhverjum hverfum í Reykjavík síðastliðinn mánudag. Ég leggst ekki á móti íslenskri hrekkjavökustemningu og þykja mér hrekkjavökuteiti sakleysisleg viðbót. Hins vegar stendur mér uggur af þessu vandræðalega millibilsástandi og hálfkáki. Fyrir unga krakka sem hafa séð hrekkjavökuhald í amerískum bíómyndum er vafalaust ruglandi að horfa á fullorðna fólkið þeysast um allar trissur til að fara í hrekkjavökuteiti en geta síðan ekki farið í tilheyrandi nammileiðangur hátíðarinnar. Aftur á móti verða nammileiðangrarnir fýluferðir svo lengi sem óákveðið er hvort taka eigi hrekkjavökuna alla leið hérlendis eður ei.

Að svo mæltu legg ég til að aðhafst verði í málinu. Eflaust eru til málsvarar beggja póla, sumir gætu viljað gera hátíðina opinbera hérlendis sem dægrastyttingu í skammdeginu á meðan öðrum gæti þótt það skjóta skökku við í ljósi þess að hér eigum við öskudaginn fyrir. Ég segi að málið verði lagt fyrir Alþingi. Ekki einungis væri það gott upp á að fá niðurstöðu í málinu, heldur yrði það skemmtiefni að horfa á þingmenn rífast um grímubúningahátíð. Rúsínan í pylsuendanum yrði síðan blaðamannafundurinn ef tillagan um að gera hrekkjavöku að opinberri hátíð hérlendis yrði samþykkt. Þar myndi forseti lýðveldisins að sjálfsögðu skrifa undir lögin með Dorrit sér við hlið, uppklædd sem Flintstones-hjónin eða eitthvað ámáta.

ORÐ Í BELG, 27. október 2011
Einar Lövdahl Gunnlaugsson

Meira í Monitor. Blaðið má lesa í rafrænni útgáfu hér.

Fred Flintstone-búningur.
Fred Flintstone-búningur.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Tafir, ruglingur og samskiptaörðugleikar í vinnunni munu setja svip sinn á þennan mánuð. En aðrir sjá ekki öll mál í sama ljósi og þá er það þolinmæðin sem gildir.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Tafir, ruglingur og samskiptaörðugleikar í vinnunni munu setja svip sinn á þennan mánuð. En aðrir sjá ekki öll mál í sama ljósi og þá er það þolinmæðin sem gildir.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar