Karl Gústaf, Svíakonungur, hefur enn einu sinni komið sér í vanda vegna þess sem hann lætur út úr sér við fjölmiðla. Nú eru það ummæli tengd því er forsætisráðherra Grikklands, George Papandreou, sagði að boðað yrði til þjóðaratkvæðagreiðslu.
Í samtali við sænska dagblaðið Dagens Industri í vikunni sagðist Karl Gústaf ekki skilja hversu langan tíma taki að undirbúa slíka atkvæðagreiðslu en rætt var um að hún færi fram í janúar eða desember. Ekki þykir viðeigandi að konungur Svíþjóðar, sem gegnir engu pólitísku hlutverki, sé að skipta sér af pólitík annarra ríkja og hvað þá að blanda sér inn í jafn viðkvæma umræðu og málefni Grikklands eru.
Sagðist Karl Gústaf ekki skilja hversu langur tími ætti að líða þar til atkvæðagreiðslan færi fram. Að í tvo mánuði ætti efnahagskerfi heimsins, einkum og sér í lagi í Evrópu, að bíða. Slíkt gangi bara alls ekki upp.
Forsætisráðherra Svíþjóðar, Fredrik Reinfeldt, vildi ekki tjá sig um ummæli konungsins í samtali við sænska fjölmiðla þegar eftir því var leitað.