Breska þungarokksveitin Black Sabbath ætlar að koma saman á ný, fara í tónleikaferð og gefa út plötu. Þetta kom fram á blaðamannafundi, sem félagarnir fjórir héldu um helgina.
„Við höfum reynt áður að koma saman án árangurs en í þetta skipti höfum við, af einhverjum galdraástæðum, samið sjö til átta lög og þau eru mjög góð," sagði Ozzy Osbourne, söngvari Black Sabbath. Hann varð raunveruleikasjónvarpsstjarna fyrir nokkrum árum.
Blaðamannafundurinn var haldinn í klúbbnum Whisky a Go Go á Sunset Strip í Los Angeles þar sem Black Sabbath hélt fyrstu tónleika sína í þeirri borg fyrir fjórum áratugum.
Tony Iommi, gítarleikari, sagði að þeir félagar hefðu alltaf verið í sambandi en það væri gott að sveitin ætlaði að koma aftur saman. Hann, Osbourne, Geezer Butler, bassaleikari og Bill Ward, trommari, sem allir eru komnir á sjötugsaldur, klæddust svörtum fötum sem voru einskonar einkennismerki Black Sabbath á sínum tíma.
Black Sabbath var stofnuð 1968 og mörg laga sveitarinnar lifa enn góðu lífi, svo sem Paranoid og Iron Man. Nýja platan, sem nefnist Never Say Die, mun koma út á næsta ári.