Þorgeir Ástvaldsson útvarpsmaður hlaut í dag Lítinn fugl, viðurkenningargrip sem veittur er á degi íslenskrar tónlistar.
Dagur íslenskrar tónlistar hefur verið haldinn hátíðlegur í dag um allt land með átakinu Syngjum saman. Allar útvarpsstöðvar landsins sameinuðust um að spila samtímis sömu þrjú íslensk lög og var tekið undir í mörgum skólum, leikskólum og vinnustöðum. Syngjum saman verður nú árviss viðburður á Degi íslenskrar tónlistar. Markmiðið er að fá sem flesta til að kveikja á útvarpinu og syngja með.
Tónlistarmenn og fulltrúar tónlistargeirans söfnuðust saman í Hörpu þar sem Kjartan Ólafsson formaður SAMTÓNS flutti erindi og heiðraði Hönnu Birnu Kristjánsdóttur borgarfulltrúa og fyrrverandi borgarstjóra og Katrínu Jakobsdóttur mennta- og menningarmálaráðherra fyrir framsýni þeirra og áræðni þegar þær ákváðu að halda áfram byggingu tónlistarhús á viðsjárverðum tímum. Hefur Harpa nú þegar sannað gildi sitt og lyft umgjörð tónlistar á Íslandi á æðra stig.
Þá veitti mennta- og menningarmálaráðherra Katrín Jakobsdóttir heiðursviðurkenningu SAMTÓNS „Lítill fugl“ til einstaklings sem talinn er hafa sýnt íslenskri tónlist samfellda og sérstaka ræktarsemi á vettvangi fjölmiðlanna. Viðurkenninguna í ár hlaut Þorgeir Ástvaldsson dagskrárgerðarmaður á Bylgjunni. Þorgeir er löngu landskunnur sem bæði tónlistarmaður og dagskrárgerðarmaður og var valinn fyrstur til að gegna starfi forstöðumanns Rásar 2 sem einnig fagnar afmæli 1.desember.
Átti hann ríkan þátt í mótun þeirrar tónlistarstöðvar og hefur jafnframt mjög sett svip sinn á Bylgjuna þar sem hann hefur starfað mörg undanfarin ár, segir í tilkynningu.
„Þorgeir, sem er landfræðingur að mennt, hóf feril sinn sem söngvari og hljómborðsleikari hljómsveitarinnar TEMPÓ, starfaði um árabil með Sumargleðinni , söng með Karlakórnum Fóstbræðrum og hefur verið samstarfsmaður og undirleikari Ragnars Bjarnasonar árum saman. Hann hefur sungið og leikið fjölda vinsælla laga inn á hljómplötur og var einn af frumkvöðlum og öflugustu liðsmönnum FTT, Félags tónskálda og textahöfunda."
ÚTÓN, Útflutningsskrifstofa íslenskrar tónlistar, fagnaði ennfremur fimm ára afmæli og var boðið upp á kakó og og veglega afmælistertu í tilefni þess. Jafnframt var tilkynnt um að í undirbúningi væri að hrinda í framkvæmd einu helsta baráttumáli ÚTÓN, en það er að koma á fót Útflutningssjóði íslenskrar tónlistar.