Danskur skotveiðimaður, sem var á villisvínaveiðum í skógi nokkrum fyrir sunnan Växjö í suðurhluta Svíþjóðar, skaut elg í misgripum fyrir svín.
Það er ólöglegt á þessum tíma árs, þar sem elgsveiðitímabilið er nú liðið. Maðurinn hefur verið kærður fyrir brot á sænsku veiðilöggjöfinni og hald hefur verið lagt á vopn hans.
Þetta er ekki í fyrsta skipti í ár sem danskur veiðimaður skýtur elg án leyfis. Það olli miklum usla í Noregi fyrr á árinu þegar Dani nokkur skaut hvítan elg skammt frá Ósló, en elgurinn sá var í miklum metum hjá Norðmönnum og gekk undir nafninu Albin.