Baltasar í sjöunda himni

Baltasar Kormákur fylgist með tökum á Contraband.
Baltasar Kormákur fylgist með tökum á Contraband.

„Það var auðvitað dálítill taugatrekkingur fyrir þetta og eitthvað verið að ýta á mig að vera úti í Bandaríkjunum. En við ákváðum hjónin að vera bara heima þessa helgi og sátum í rauninni bara heima með rauðvínsglas og harðfisk þegar við fengum þessar fréttir,“ segir leikstjórinn Baltasar Kormákur.

Baltasar er staddur heima hjá sér, á Hofsósi, en nýjasta mynd hans, Contraband, er tekjuhæsta myndin í kvikmyndahúsum Bandaríkjanna um þessa helgi, eins og þegar hefur verið sagt frá. Myndin er eftirgerð íslensku spennumyndarinnar Reykjavík-Rotterdam sem Baltasar lék sjálfur aðalhlutverkið í árið 2008, Óskar Jónasson leikstýrði og Arnaldur Indriðason skrifaði handritið að.

Nú er það hins vegar stórstjarnan Mark Wahlberg sem fer með burðahlutverkið en fleiri frægir leikarar eru í myndinni, svo sem Kate Beckinsale.

Talið er að myndin muni hafa vel á þriðja tug milljóna dollara í tekjur þessa fyrstu sýningarhelgi, en hún kostaði um 25 milljónir dollara í framleiðslu. Baltasar er í sjöunda himni með viðtökurnar. „Hún hefði getað lent í tíu milljónum þessa  fyrstu sýningarhelgi. Þetta er miklu stærri opnun en margar aðrar myndir hjá Wahlberg,“ segir hann.

Wahlberg hringdi

The Italian Job, Four Brothers og Max Payne eru allt frægar myndir með Mark Wahlberg sem öfluðu minni tekna yfir frumsýningarhelgi en Contrabandið hans Baltasars. „Hann hringdi í mig í gær sjálfur, alveg í skýjunum,“ segir Baltasar, sem hefur fengið símtöl og tölvupóst, meðal annars frá yfirmanni Universal, sem framleiðir og dreifir myndinni, og frá forstjóra NBC, sem á Universal.

Baltasar segir mikla ánægju ríkjandi og vilji sé til að skipuleggja næsta verkefni í framhaldinu. Hann leggur þó áherslu á að þetta sé ekki bara myndin hans. Um tuttugu Íslendingar unnu að þessari mynd sérstaklega, úti í Bandaríkjunum, en þar að auki vann fjöldi fólks hjá íslenska tölvufyrirtækinu Framestore að myndinni, að ógleymdum þeim sem komu að frumgerðinni, Reykjavík-Rotterdam.

Áhorfendur ánægðir

Baltasar segir útlitið gott fyrir áframhaldandi gengi myndarinnar því útgönguspár á vegum fyrirtækis sem nefnist Cinemascore gefa mjög góðar niðurstöður, eða einkunnina A- á skala sem nær alveg niður í F. Til samanburðar nefnir hann að spennumyndin The Town, með Ben Affleck, Jeremy Renner og Blake Lively í aðalhlutverkum, fékk á sínum tíma B+ og Drive fékk C, en gagnrýnendur völdu hana margir bestu mynd síðasta árs.

„Þetta segja þeir að þýði að myndin geti haft „legs“ eins og það er kallað, eða að hún hafi úthald,“ segir Baltasar. Myndin gæti því átt góðu gengi og mikilli aðsókn að fagna um nokkra hríð, frekar en að hún hali mikið inn fyrstu helgina og aðsóknin detti síðan fljótt niður.  

Vill starfa á báðum stöðum

Hvaða áhrif hefur þetta á Baltasar og störf hans? Hverfur hann nú alfarið í faðm draumaverksmiðjunnar í Hollywood?

„Ég vil starfa á báðum stöðum. Hollywood er dálítið þannig að það er erfiðara að stjórna tíma sínum. Allt þarf að vera svo skipulagt og það getur verið dálítið erfitt. En það sem ég hef áhuga á er að reyna að nýta þessi tækifæri til að byggja upp bransann hérna heima. Ég hef verið að gera það líka, hef verið að fjárfesta í nýju sjónvarpframleiðslufyrirtæki, er að framleiða nýju myndina hans Dags Kára og ætla að reyna að eftirvinna næstu mynd, sem heitir Two Guns, eins mikið á Íslandi og ég get. Svo eru tvö verkefni í burðarliðnum sem heita Everest og Víkingur og stefnan er að taka meirihlutann af þeim á Íslandi líka,“ segir Baltasar.

Hann segir það ekki sitt markmið að „meika það“ í útlöndum í sjálfu sér, heldur vilji hann nýta þennan árangur til að gera eitthvað úr honum hér heima á Íslandi. 

Mark Wahlberg leikur aðalhlutverkið í Contraband.
Mark Wahlberg leikur aðalhlutverkið í Contraband.
Baltasar Kormákur við tökur á Contraband.
Baltasar Kormákur við tökur á Contraband.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Ekki afsala þér öllu í dag og ekki búast við of miklu frá öðrum. Líttu í spegil og segðu sjálfum þér að þú sért frábær.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
2
Ragnar Jónasson
3
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Carla Kovach
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Ekki afsala þér öllu í dag og ekki búast við of miklu frá öðrum. Líttu í spegil og segðu sjálfum þér að þú sért frábær.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
2
Ragnar Jónasson
3
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Carla Kovach