Elísabet Bretlandsdrottning verður á ferð og flugi um konungsveldið í fimm mánuði, í tilefni af því að sextíu ár eru nú liðin frá krýningu hennar.
Fyrsti áfangastaður er borgin Leicester en þar verður Elísabet ásamt fríðu föruneyti 8. mars næstkomandi. Ferðalagið endar svo í Hampshire á Suðaustur-Englandi 25. júlí. Ekki er komin dagsetning á heimsókn drottningar til Norður-Írlands af öryggisástæðum.
Elísabet mun ferðast ásamt manni sínum, Filippusi prins. Verða þau ferjuð milli staða í bílum, flugvélum og hinni konunglegu lest sem og í lúxussnekkju sem þau fá lánaða.
„Á ferðalaginu gefst drottningu tækifæri til að þakka íbúum landsins stuðninginn í gegnum árin,“ segir í frétt frá konungshöllinni.
Elísabet er 85 ára gömul og eiginmaðurinn níræður. Verður ferðin skipulögð með aldur þeirra í huga.