„Ég byrjaði að æfa ballett þegar ég var næstum því þriggja ára,“ segir Elena Dís Ásgeirsdóttir tíu ára, sem nýlega hreppti aðalhlutverkið í uppfærslu ballettskólans í Sönderborg í Danmörku á ævintýrinu um Gosa. „Ég leik Gosa, stóra skólastelpu og hafmeyju.“ Sýningin verður sett upp í mars.
Elena Dís hefur verið búsett í Danmörku undanfarin þrjú ár.
Auk þess að æfa ballett þrisvar í viku með ballettskólanum í Sönderborg æfir Elena Dís með konunglega ballettinum í Kaupmannahöfn. Þangað fer hún nokkrum sinnum á ári og auk þess koma þjálfarar og kennarar konunglega ballettsins nokkrum sinnum á ári til Sönderborg til að þjálfa Elenu Dís. Þess er krafist að börnin í konunglega ballettskólanum stundi tónlistarnám og því lærir Elena Dís einnig á píanó.
Hún er ekki sú eina í fjölskyldunni sem leggur stund á dansinn, því systir hennar Karólína æfir einnig ballett og tekur þátt í sýningunni.
Skemmtilegt að dansa, en líka að leika við vinina
„Mér finnst skemmtilegt að dansa,“ segir Elena Dís. „Tónlistin er líka falleg og búningarnir flottir þegar ég er í sýningu.“ Lífið er þó fleira en ballett, því Elenu Dís finnst líka gaman í skólanum og að leika við vini sína.
Hún tekur afar strangt inntökupróf einu sinni á hverju ári til að geta haldið áfram að dansa með konunglega ballettinum. Spurð hvort hún verði nokkurn tímann þreytt kveður Elena Dís já við. „Ég verð stundum þreytt. En ég held bara áfram og fæ mér að drekka.“
Mikið eftirlit með ballerínunni ungu
Að sögn Tinnu Bessadóttur, móður Elenu Dísar, fer Elena reglulega í skoðun hjá sjúkraþjálfara til að fylgjast með hvort æfingarnar sem hún gerir séu réttar fyrir hana. „Það er til þess að vera fullviss um að hún geri engar æfingar sem líkaminn er ekki tilbúinn í og að hún fái að þroskast eðlilega,“ segir Tinna.