Ryan Gosling er að margra áliti efstur á blaði þegar velja á kynþokkafyllsta karlmann heims. Leikarinn hefur verið orðaður við nokkrar fegurðardísir í Hollywood og á nú í ástarsambandi við leikkonuna Evu Mendes. Engu að síður þurfti hann að lesa sér til við undirbúning fyrir hlutverk sitt í nýjustu myndinni, rómantísku gamanmyndinni Crazy, Stupid, Love.
Í viðtali við breska dagblaðið The Sun segir Gosling að hann hafi þurft að vinna rannsóknarvinnu og leita eftir upplýsingum um hvaða góðu kostum karlmaður þyrfti að vera búinn til að heilla konur upp úr skónum.
„Ég vil ekki valda ykkur vonbrigðum en ég verð að viðurkenna að ég er ekki eins vel að mér í þessum málum og persónan sem ég leik í myndinni,“ segir Gosling. „Ég vissi ekki nógu vel hvaða aðferðum er best að beita til að ná athygli kvenna og því aflaði ég mér upplýsinga.“
Og hann heldur áfram: „Ég las karlatímarit en þar stendur allt um það hvernig maður á að klæða sig, hvaða líkamsæfingar skila bestum árangri og hvaða orðalag fellur best í kramið hjá konum. Ég las líka bókina The Game og horfði á sjónvarpsþáttinn The Pick Up Artist. Ég veit raunar ekki hvort það er hægt að kenna réttu aðferðirnar til að ganga í augun á konum.“