Franska kvikmyndin The Artist sópaði til sín helstu verðlaunum Óskarshátíðarinnar í Los Angeles. Hún var meðal annars valin besta kvikmyndin, Jean Dujardin var valinn besti leikari í aðalhlutverki og Michel Hazanavicius hlaut Óskarinn fyrir leikstjórn.
Þetta er í fyrsta sinn í sögu Óskarsverðlaunanna sem frönsk kvikmynd er valin besta kvikmyndin. Alls voru níu kvikmyndir en The Artist hafði verið spáð sigri og nýlega var hún valin mynd ársins á bæði Golden Globe verðlaunahátíðinni og frönsku Cesar-hátíðinni.
Jean Dujardin er sömuleiðis fyrsti franski karlleikarinn til að fá Óskar fyrir besta leik í aðalhlutverki. Myndin hlaut tvenn verðlaun til viðbótar, fyrir búningahönnun og bestu tónlistina.
Við gríðarlegan fögnuð gesta var Meryl Streep valin besta leikkonan fyrir hlutverk sitt í Járnfrúnni, myndinni um Margaret Thatcher.
Á Óskarshátíðinni bar það til tíðinda að Christopher Plummer fékk Óskar fyrir hlutverk sitt í kvikmyndinni Beginners. Svo aldraður leikari hefur ekki fyrr hlotið Óskar en Plummer er 82 ára.