Handrit kvikmyndarinnar Sumarið 800 eftir Björn B. Björnsson er komið í undanúrslit ásamt 35 öðrum, af yfir 2.300 sem send voru í Blue Cat Screenplay-handritakeppnina í Bandaríkjunum. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu.
Auk aðalverðlauna eru veitt svokölluð Cordelia- og Joplin-verðlaun sem miðast við hvaðan úr heiminum handritin koma. Cordelia-verðlaunin einskorðast við Bandaríkin, Kanada og Bretland en Joplin-verðlaunin eru veitt fyrir handrit skrifuð utan þessara landa og er Sumarið 800 eitt fjögurra handrita sem tilnefnd eru í þeim flokki.
Sumarið 800 gerist á Íslandi og segir frá átökum írskra munka sem hér búa og víkinga sem koma til landsins frá Noregi, segir í tilkynningu.
Unnið er að undirbúningi myndarinnar í samvinnu við erlenda aðila en Sagafilm framleiðir myndina. Björn B. Björnsson og Sagafilm hafa áður unnið saman að myndinni Köld slóð.
Hér má lesa meira um keppnina og handritin