Íslenskt vatn frá Icelandic Glacial er meðal uppistöðuefna í nýrri vörulínu snyrtivöruframleiðandans Dior, sem ætlar að setja sex milljónir evra í auglýsingaherferð fyrir línuna þar sem alls staðar verður tekið fram að vörurnar séu framleiddar með Icelandic Glacial-vatni.
Jón Ólafsson, eigandi Icelandic Glacial, er í viðtali í bandaríska viðskiptatímaritinu Inc.í gær. Hann segir að Dior hafi rannsakað allar fáanlegar gerðir af átöppuðu vatni og komist að þeirri niðurstöðu að Icelandic Glacial væri besta vatn í heimi.
Í viðtalinu segir Jón þó að hann hefði aldrei farið út í viðskipti með vatn á sínum tíma ef hann hefði vitað þá það sem hann veit nú. „Við héldum að við gætum gert þetta fyrir 8 til 12 milljónir dala. Við erum núna búnir að setja um 120 milljónir í þetta,“ segir Jón, sem stofnaði Icelandic Glacial ásamt syni sínum. Jón segist hafa ætlað sér að setjast í helgan stein en komist að því að hann væri vinnualki.
Hann sér fyrir sér að þegar fyrirtækið verður komið á gott ról muni hann setja það í hendurnar á öðrum og einbeita sér sjálfur að því að nýta íslenska vatnið til góðgerðarmála, líkt og þegar jarðskjálftinn reið yfir Haítí og íslenskt vatn fyrir eina milljón dala var sent til eyjunnar.
Nóg er allavega af vatninu, eins og Jón lýsir í viðtalinu: „Magnið af vatni sem streymir út í sjóinn [frá Íslandi] á hverjum degi er tvöfalt það magn sem neytt er af flöskuvatni um allan heim á dag.“