Vinsældir hljómsveitarinnar Of Monsters and Men í Norður-Ameríku eru með ólíkindum. Platan þeirra, My Head is an Animal, sem kom út í Bandaríkjunum 3. apríl, er vinsælasta rokkplatan á Bilboard listanum þessa vikuna og í 6. sæti vinsældarlista allra flokka. Ameríkutúr þeirra lýkur um helgina en selst hefur upp á alla tónleikana.
My Head is an Animal hefur selst í ríflega 55.000 eintökum á þeirri rúmu viku sem liðin er síðan platan kom út í Bandaríkjunum, samkvæmt samantekt síðunnar Hits Daily Double. Tveimur sætum neðar á listanum er að finna nýjustu plötu Madonnu, MDNA, sem kom út tæpum 2 vikum á undan plötu Of Monsters and Men, en hefur til samanburðar selst í ríflega 46.000 eintökum.
„Íslenskur framandleiki“
Platan fær líka prýðilega dóma gagnrýnenda. Paste Magazine birti t.a.m. dóm um plötuna í gær þar sem sagði að þótt lögin væru misgóð og platan aðeins of langdregin þá færi Of Monsters and Men „íslenskan framandleika og heillandi orku til bandarískra tónlistarunnenda“ með plötunni. Gagnrýnandi University Observer sagði í gær að platan sé heillandi og grípandi og lagasmíðarnar fullar af hressandi og frumlegum krækjum sem haldi hlustandanum föstum. Og gagnrýnandi Sputnik Music segir það alveg ljóst af fyrstu plötu þeirra að Of Monsters and Men hafi hæfileikana til að gera hvað sem þeim sýnist, hvort sem það verði vinsælt eða ekki.
Skora hærra en Arcade Fire
Frá 14. mars hefur hljómsveitin spilað á tæplega 20 stöðum í Bandaríkjunum og Kanada, alls staðar fyrir troðfullu húsi og alltaf seldist upp. Sveitin spilar í kvöld í Toronto í Kanada, en Ameríkutúrnum lýkur með ókeypis tónleikum í Washington DC í tilefni af hátíðinni „A Taste of Iceland". Eftir stutt hlé heldur ferðin svo áfram til meginlands Evrópu, þar sem Of Monsters and Men mun túra fram á vor en þegar er uppselt á tónleika sveitarinnar í Amsterdam, Brussel, Berlín, Köln og London.
Þess má geta að helsti keppinautur OMAM á Billboard listanum núna er platan með tónlistinni úr kvikmyndinni Hunger Games, sem kemur fast á hæla My Head is an Animal. Aðallagið á þeirri plötu er Abraham's Daughter, með kanadísku ofursveitinni Arcade Fire, en blaðamaður Rolling Stone spáði því einmitt, eftir að hafa hlýtt á Of Monsters and Men á Iceland Airwaves tónleikunum í haust, að hljómsveitin myndi slá í gegn sem „næsta Arcade Fire“ í Bandaríkjunum.
Bandaríska Billboard listann má sjá hér