Fleiri hundruð myndbönd voru send inn á mbl.is þegar Hæfileikakeppni Íslands hófst fyrr í vor. Af þeim voru um 80 atriði sem komust áfram í undanúrslitaþættina. Nú er aftur á móti úrslitastundin runnin upp og annað kvöld munu 18 keppendur keppast um að heilla dómnefndina og íslensku þjóðina því það er jú í höndum þjóðarinnar að velja sigurvegarann.
Monitor heyrði í keppendum og voru flestir búnir að eyða miklum tíma í æfingar og margir hverjir ætla að breyta atriði sínu í úrslitaþættinum. Sjálfur Bubbi Morthens mun svo taka þátt í þessum síðasta þætti en hann verður í hlutverki gestadómara. „Ég er rosalega spenntur, ég er að brýna hnífana," sagði Bubbi kátur þegar Monitor náði tali af honum. „Ég hef reynslu af því að tjá mig um sönginn en ég veit að ég mun líka geta tjáð mig um töfrabrögðin, dansatriðin og allt hitt og ef ekki þá bara bulla ég mig í gegnum það," bætti Bubbi við og skellti upp úr.
Bubbi sat sem kunnugt er í dómarasætinu í Idol stjörnuleit á sínum tíma og segist hann sakna þeirra ára. „Ég er búinn að vera hér í einmana eyðimerkurgöngu þar sem ég blæs í lúðra og heimta Idol-ið. Þetta er svo skemmtilegt fjölskylduefni og kjörin vettvangur fyrir ungt hæfileikafólk að láta ljós sitt skína. Þess vegna fagna ég keppni eins og Hæfileikakeppni Íslands," sagði Bubbi að lokum. Þrátt fyrir að Bubbi hafi oft á tíðum verið harður í Idolinu eru Hæfileikakeppendur ekkert smeykir við hann eins og sjá má hér að neðan.
Monitor er hægt að lesa hér að neðan...