Skólabörn í Mosfellsbæ fylltu Miðbæjartorgið fyrr í dag þegar fram fóru kveðjutónleikar Gretu Salóme og Jónsa, en þau halda til Aserbaídsjan á morgun þar sem þau keppa fyrir hönd Íslands í Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva.
Börnum á öllum skólastigum var boðið að mæta á kveðjutónleikana og gengu þau fylktu liði úr skólum sínum, og létu ekkert á sig fá þótt aðeins rigndi. Vel var tekið undir þegar Greta Salóme og Jónsi sungu lagið Mundu eftir mér sem þau munu flytja í Bakú í Aserbaídsjan 22. maí nk., en þá að vísu á ensku og heitir lagið þá Never forget.
Á meðfylgjandi myndasyrpu má sjá allt að tvö þúsund skólabörn fylgjast með tónleikunum.