Íslendingar fikra sig hægt og bítandi upp töfluna yfir sigurstranglega keppendur í Evróvisjón-söngvakeppninni, sem fram fer í Bakú, höfuðborg Aserbaídsjan, síðar í mánuðinum.
Framlag Íslands, lagið Never Forget í flutningi Jóns Jóseps Snæbjörnssonar og Gretu Salóme Stefánsdóttur, vermir nú sjötta sætið hjá veðbönkum.
Sem fyrr er því spáð að Svíþjóð, Rússland og Ítalía verði í þremur efstu sætunum. Framlag Svía, lagið Euphoria í flutningi Loreen, nýtur umtalsverðra vinsælda í Evrópu um þessar mundir og situr í 7. sæti vinsældarlista FM957.
Íslendingar keppa í undanúrslitum keppninnar 22. maí en úrslitakeppnin fer fram laugardaginn 26. maí.