Þenja raddböndin í Bakú

Það er í mörg horn að líta hjá íslenska hópnum sem tekur þátt í Evróvisjónkeppninni, sem fram fer í Aserbaídsjan. Jónatan Garðarsson, liðsstjóri íslensku sendinefndarinnar, segir í samtali við mbl.is að stemningin í hópnum sé góð og menn bíði spenntir eftir því að komast á sviðið í höllinni í Bakú.

Undanfarna daga hafa þau Jón Jósep Snæbjörnsson og Greta Salóme Stefánsdóttir haft í nógu að snúast. Jónatan segir þau hafa æft af kappi og þá hafi mikill tími farið í að ræða við fjölmiðla. Í gær hafi þau farið í um 30 viðtöl og þá hafi þau verið komin mjög snemma á fætur í morgun til að fara í nokkur viðtöl til viðbótar.

„Það er búið að vera nóg að gera. En þessa daga á milli [æfinga í höllinni] höfum við æft uppi á hóteli. Farið í gegnum atriðið þar og skoðað upptökur,“ segir Jónatan.

Aldrei gert jafnfáar athugasemdir

Jón og Greta munu flytja lagið Never Forget í fyrri undankeppninni sem fram fer nk. þriðjudagskvöld, en íslenska atriðið er númer tvö í röðinni.

„Það gengur mjög vel,“ segir Jónatan og bætir við að hópurinn hafi verið að æfa atriðið í gær. „Við fengum að renna laginu nokkrum sinnum í gegn. Við erum að vinna með þeim í ljósum, bakgrunni, hljóði og þess háttar,“ segir Jónatan.

Í kjölfarið hafi verið horft á upptöku með stjórnendunum. „Við gerðum athugasemdir við örfáa hluti. Ég held að við höfum aldrei gert svona fáar athugasemdir - það voru margir hlutir í lagi,“ segir hann. Að æfingu lokinni hafi blaðamannafundur tekið við sem hafi aðallega farið í að leika íslenska tónlist.

Sviðið óvenjulegt en glæsilegt

Sami hópur og stýrði Evróvisjónkeppninni í fyrra heldur um stjórntaumana í Bakú í ár. Jónatan segir að þetta sé hópur Þjóðverja sem „gera þetta mjög vel. Sviðið er mjög flott hjá þeim“, segir hann. Það sé óvenjulegt í laginu og minni einna helst á samþjappaðan tígul. Hins vegar sé sjón sögu ríkari.

Þá segir hann að tónleikahöllin í Bakú sé ekki eins risavaxin og menn héldu að hún yrði. „Þótt hún taki 80.000 manns í sæti er hún hæfilega stór umfangs.“

Enn að jafna sig á tímamismuninum

Íslenski hópurinn kom til Aserbaídsjan sl. sunnudag og fór hann nánast beint á æfingu við komuna.

„Við náðum varla að leggjast út af á koddann þegar við áttum að mæta á æfingu. Við höfðum tvo tíma á milli og það sofnaði eiginlega enginn. Það þorði enginn að fara sofa. Við vorum búin að vera á fótum í um 30 tíma þegar við fórum loksins á sviðið,“ segir Jónatan og bætir við að hópurinn sé enn að jafna sig á tímamismuninum, en Aserbaídsjan er fimm tímum á undan Íslandi.

Á sunnudaginn ætlar hópurinn að taka því rólega en á mánudaginn verða tvær æfingar í höllinni þar sem atriðinu verður rennt í gegn. Á þriðjudag verður generalprufan í fullum skrúða og um um kvöldið mun svo stóra stundin renna upp.

mbl.is
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þér hættir til í hita augnabliksins að missa stjórn á skapi þínu, sem er ekki gott. Gakktu hægt um gleðinnar dyr og mundu að á morgun er nýr dagur með nýjum tækifærum.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Kathryn Hughes
2
Unnur Lilja Aradóttir
3
Torill Thorup
4
Steindór Ívarsson
5
Birgitta H. Halldórsdóttir
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þér hættir til í hita augnabliksins að missa stjórn á skapi þínu, sem er ekki gott. Gakktu hægt um gleðinnar dyr og mundu að á morgun er nýr dagur með nýjum tækifærum.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Kathryn Hughes
2
Unnur Lilja Aradóttir
3
Torill Thorup
4
Steindór Ívarsson
5
Birgitta H. Halldórsdóttir