„Gunnar minn hefur endanlega verið sigraður í þeirri kirkju sem hann byggði upp og það af sömu öflum og reyndu að knésetja hann þegar við giftum okkur.“ Þetta segir Jónína Benediktsdóttir um Gunnar Þorsteinsson sem oftast er kenndur við Krossinn.
Jónína lætur orð þessi falla á samskiptavefnum Facebook og einnig að hún hafi sagt sig úr Krossinum. „Já ég hef sagt mig úr Krossinum og tek ekki á mig syndir hvað þá sjúkdóma annarra í meðvirkni þeirri sem þar nú ríkir gagnvart fársjúku fólki.“
Hún segir að valdabrölt, illmælgi og ofstæki ráði þar ríkjum. „Það er stórhættulegt veikum sálum.“
Jónína segist hafa orðið fyrir persónulegri árás frá fyrrverandi eiginkonu Gunnars og hann einnig, fyrir framan söfnuðinn, og þau séu sem lömuð. „Mest af sorg því við lögðum mikið á okkur til þess að elska fólkið sem þar sótti samkomur. [...] Gunnar minn er brotinn vegna þeirra árása sem á hann eru lagðar endalaust. En hann er fastur í trúnni og neitar að gefast upp.“