Hænurnar hans Benna í Múla eru fordekraðar og þeim sinna hvorki meira né minna en fjórir vinnumenn. Þetta eru alvöru haughænsn sem fá að vappa út um víðan völl.
Þær heita Gullbrá, Eva, Svarthildur og Mjallhvít.„Ég var hræddur um að ég hefði glatað henni Gullbrá, við vorum búin að leita að henni út um allt og við vorum svolítið hrædd um að refur eða minkur hefði étið hana. En Daníel bróðir minn fann hana að lokum þar sem hún leyndist í hlöðunni,“ segir Benjamín Jónsson ungur hænsnabóndi um þann erfiða dag þegar ein af hænunum hans fjórum hvarf og var týnd í heilan sólarhring.
Benni er mikið fyrir dýr en er ekki í góðri aðstöðu til að eiga þau, því hann er tveggja heima drengur. Fjölskylda hans býr í Bandaríkjunum yfir vetrartímann en þau eyða sumrinu á öðru heimili sínu í Múla í Biskupstungum. „Afi minn sagði mér frá því að hægt væri að leigja hænur yfir sumarið og ég varð mjög glaður þegar mamma og pabbi sögðu já þegar ég bað um að fá nokkrar til að hafa í Múla í sumar.“
Athugar með hænurnar minnst tuttugu sinnum á dag
Svo heppilega vill til að niðri við hlöðu á bænum hans Benna er lítið hús sem þeir bræður, hann og Daníel eiga og hentar vel sem hænsnakofi. „Við þurftum bara að breyta því aðeins, loka gaflinum, setja glugga, hænsnaprik, varpkassa og annað sem hænur þurfa,“ segir Benni sem er afar natinn við hænurnar sínar og athugar með þær minnst tuttugu sinnum á dag, að eigin sögn.
Langar til að verða kúabóndi
Í æðum Benna rennur ekki aðeins blóð bóndans heldur líka viðskiptamannsins. „Ég sel eggin úr hænunum á 110 krónur stykkið, enda eru þetta mjög góð egg úr alveg frjálsum hænum. Mamma hefur verið minn helsti viðskiptavinur. Svo lét ég búa til fyrir mig sérstakt merki á eggjabakkann, frændur mínir sem eru auglýsingateiknarar hjálpuðu mér með að hanna það. Eggin mín heita Begg, af því ég heiti Benjamín.“