Meðlimur kúveisku konungsfjölskyldunnar ætlar að gefa sem samsvarar rúmlega 26 milljörðum íslenskra króna til kúveiskra skuldara, manna sem hyggja á hjónaband og lærðra einstaklinga í landinu.
Í tilkynningu á Twitter frá Salem al-Ali al-Sabah, sem á níræðisaldri fer enn fyrir her Kúveita, segist hann ætla að veita 60 milljónum dínara, eða sem samsvarar rúmlega 26 milljörðum króna, til að aðstoða kúveiska skuldara, menn sem hyggja á hjónaband og nema sem ljúka doktorsgráðum.
Mun hver sá Kúveiti sem kvænist kúveiskri konu á næstunni fá sem samsvarar rúmum tveimur og hálfri milljón króna í sinn hlut, þeir sem skulda fá sem samsvarar átjánhundruð þúsundum króna hver. Þá mun hver sá Kúveiti í landinu sem lýkur doktorsgráðu á næstunni fá sem samsvarar níu milljónum króna í sinn hlut. Tekið skal fram að allar fjárhæðirnar verða veittar viðkomandi í dínörum.
Ekki er það svo gott að þegnar annarra ríkja sem búa í Kúveit falli einnig undir þessa styrktaráætlun Salems, hún á einungis við um innlenda þegna olíuríkisins.