Aðdáendur söngkonunnar Madonnu voru ekki ánægðir þegar hún söng aðeins í 45 mínútur í tónleikahöllinni Olympia í síðustu viku. Reiðir áhorfendur ruddust að sviðinu og hentu flöskum að því þegar að söngkonan yfirgaf sviðið. Löngu eftir að tónleikunum lauk mátti heyra þá æpa og heimta endurgreiðslu.
Madonna sagði við fjölmiðla um helgina að þetta hefðu alls ekki verið aðdáendur hennar heldur einhverjir vitleysingar sem reyndu að eyðileggja þetta yndislega kvöld. Umboðsmaður söngkonunnar sagði aldrei hafa staðið til að tónleikarnir yrðu lengri. Verð miðanna hefði verið í samræmi við það en miðar í ódýrustu sætin voru seldir á um 12.000 krónur meðan miðar í þau bestu kostuðu tæplega 250.000 krónur.