Síðustu mánuðir Monroe

Marilyn Monroe var 36 ára gömul þegar hún lést. Í …
Marilyn Monroe var 36 ára gömul þegar hún lést. Í augum umheimsins er hú að eilífu ung.

Um helgina eru 50 ár síðan Marilyn Monroe fannst látin á heimili sínu í Los Angeles, 36 ára gömul. Hún lá samanhnipruð og nakin í rúmi sínu með ábreiðu yfir sér. Niðurstaða dánarstjóra var að dauði hennar væri að öllum líkindum sjálfsmorð enda sýndu rannsóknir mikið magn svefnlyfja og róandi lyfja í líkama hennar.

Samsæriskenningar fóru samstundis á kreik og ekkert lát hefur verið á þeim, þótt hálf öld sé liðin frá sviplegu láti frægasta kyntákns sögunnar. Ein kenning er á þá leið að Monroe hafi átt í ástarsambandi við Robert Kennedy sem hefði lofað að giftast henni en síðan skipt um skoðun og þegar hún hótaði að gera samband þeirra opinbert hafi hann og bróðir hans, John F. Kennedy forseti, sem einnig var ástmaður hennar, látið ryðja henni úr vegi. Einnig hefur verið fullyrt að Monroe hafi búið yfir óþægilegum upplýsingum sem hún hefði fengið hjá forsetanum og bróður hans og skráð þær í dagbók, auk þess sem hún hefði talað inn á segulband og sagt frá ýmsu sem myndi koma bræðrunum illa. Því hefði bandaríska leyniþjónustan og Kennedy bræður talið nauðsynlegt að grípa til örþrifaráða og látið myrða hana. Glannalegar fullyrðingar af þessu tagi hafa fest sig í sessi í vitund margra. Þeir sem rannsakað hafa vandlega dauða Monroe og samband hennar við Kennedy bræður eru sammála um að engar sannanir séu fyrir því að FBI, CIA eða Kennedyarnir hafi átt nokkurn þátt í dauða Marilyn Monroe.

Einnig verður að hafa í huga að þegar goðsögn deyr verða margir til að gera sér mat úr því og það gerðist í tilfelli Marilyn Monroe, en alls kyns sníkjudýr, sem vildu koma sjálfum sér í sviðsljósið og auðgast, seldu frásagnir af samskiptum við Monroe og sögðu frá trúnaðarsamtölum sem höfðu að geyma æsilegar upplýsingar, sem ómögulegt var að sannreyna.

Joe DiMaggio snýr aftur

Síðustu mánuðina í lífi Marilyn Monroe benti ýmislegt til þess að hún væri að ná tökum á lífi sínu og losa sig við fólk sem hafði slæm áhrif á hana. Má þar sérstaklega nefna sálgreini hennar, Ralph Greenson sem hafði gert hana óeðlilega háða sér og setti henni boð og bönn og ákvað hvaða vini hún mætti eiga og hverja hún mætti heimsækja. Hann var einn af þeim sálfræðingum sem hefði sjálfur þurft sálfræðiaðstoð. Hann hafði ráðið sérstaka ráðskonu, Eunice Murray til að hafa auga með Monroe og í sameiningu tóku Greenson og Murray sífellt fleiri ákvarðanir fyrir leikkonuna. Vinum Monroe stóð stuggur af þessum tveimur manneskjum. Monroe ætlaði sér að reka Murray og hafði vaxandi efasemdir um Greenson.

Monroe, sem allt frá barnsaldri þjáðist af öryggisleysi og höfnunarkennd, hafði lengi verið háð róandi lyfjum og svefntöflum og á því varð engin breyting síðustu mánuði í lífi hennar. Monroe var þó nokkuð betur á sig komin andlega en oft áður og sagði vinum sínum að sér hefði aldrei liðið betur. Þeir töldu hana aldrei hafa verið jafn fallega og á þessum tíma og sögðu að hún hefði verið bjartsýnni en oftast áður. Hún lét sig dreyma um að eignast barn en hún hafði þrisvar misst fóstur í hjónbandi sínu með leikskáldinu Arthur Miller. Síðasta árið sem hún lifði sagði Monroe að það að eignast barn myndi fullkomna hana sem konu.

Árið 1962, árið sem hún lést, var Monroe skilinn við þriðja eiginmann sinn, leikritaskáldið Arthur Miller og hafði endurnýjað samband við eiginmann númer tvö, hafnarboltakappann Joe DiMaggio en hjónaband þeirra hafði einungis staðið í níu mánuði árið 1954. Hann hafði aldrei hætt að elska hana og sagði vinum sínum að þau ætluðu sér að ganga aftur í hjónaband. Hún staðfesti fyrirhugaða giftingu í samtali við antíksala sem hún verslaði við þegar hún sagði: „Ég er svo hamingjusöm vegna þess að ég er að fara að giftast manni sem ég var gift áður.“ Eftir lát hennar fannst í minnisbók hennar bréf sem hún hafði skrifað DiMaggio en ekki lokið við. Þar stóð: „Kæri Joe, Ef mér tekst að gera þig hamingjusaman þá hefur mér tekist það stærsta og erfiðasta sem hægt er – sem er að gera eina manneskju fullkomlega hamingjusama. Þín hamingja er mín hamingja og...“

Það rímar ekki fullkomlega að Monroe hafi átt í ástríðufullu sambandi við Robert Kennedy á svipuðum tíma og hún var að endurnýja sambandið við fyrrum eiginmann sinn. Donald Spoto, sem hefur sennilega skrifað bestu ævisöguna um Monroe, fullyrðir að ekkert ástarsamband hafi verið á milli Roberts Kennedys og Marilyn Monroe, heldur einungis ágæt vinátta þótt þau hafi ekki hist oft. Ekki eru allir ævisagnahöfundar Monroe sammála Spoto og telja víst að um ástarsamband hafi verið að ræða.

Monroe átti alveg örugglega í ástarsambandi við hinn ofurkvensama John F. Kennedy. Það var reyndar einungis ein helgi, sagði Monroe við vini sína. Enn er svo deilt um hvort það sé rétt.

Síðasti dagurinn

Daginn sem Monroe dó, 4. ágúst, um klukkan fimm, hringdi leikarinn Peter Lawford, mágur Kennedys forseta, í hana og bauð henni í samkvæmi. Hún afþakkaði boðið og ekki var að heyra á henni að nokkuð væri að angra hana. Klukkan sjö hringdi tvítugur sonur DiMaggio í fyrrum stjúpmóður sína, en þau Monroe voru miklir mátar og töluðust oft við. Hann sagði seinna að það hefði legið vel á henni og hún hefði virst hamingjusöm. Um fjörutíu mínútum seinna hringdi Peter Lawford aftur til að ítreka boð sitt í samkvæmi og heyrði í allt annarri konu. Rödd Monroe var drafandi og þegar Lawford spurði hvað væri að fékk hann ekkert svar. Pilluneysla leikkonunnar var þekkt vandamál og Lawford hafði samband við vini og kunningja leikkonunnar og bað þá að fara til hennar og athuga ástand hennar. Af ýmsum ástæðum var brugðist seint og illa við því en um miðnætti komu ráðskona leikkonunnar og sálgreinir hennar að henni látinni. Yfirmanni fyrirtækisins sem sá um kynningarmál leikkonunnar mun hafa verið látið vita af stöðu mála og flýtt sér á vettvang. Hans hlutverk átti að vera að forða því að fjölmiðlar fréttu samstundis af láti leikkonunnar. Það var ekki fyrr en um sex klukkustundum síðar sem hringt var í lögregluna. Opinber dánardagur hennar er því 5. ágúst þótt nú sé talið að hún hafi verið látin fyrir miðnætti 4. ágúst.

Sú töf sem varð á því að hringt væri í lögreglu kallar vissulega á tortryggni og ól á samsæriskenningum og ekki bætti úr skák að rannsóknin á láti leikkonunnar var vægast sagt afar klúðursleg. Enginn veit hvað nákvæmlega gerðist 4. ágúst og varð til þess að Monroe sem var glöð og gáskafull klukkan sjö um kvöldið var orðin uppdópuð fjörtíu mínútum seinna. Mörgum árum síðar sagði ráðskona Monroe að Robert Kennedy hefði heimsótt leikkonuna daginn sem hún dó. Hún var reyndar margsaga í frásögnum sínum um það hvað gerðist kvöldið örlagaríka og telst vart áreiðanlegt vitni.

Þeir sem kynnt hafa sér málið af mestri yfirvegun telja útilokað að Monroe hafi verið myrt. Þeir telja líklegast að Monroe hafi einfaldlega í hugsunarleysi og sljóleika tekið inn of margar töflur, eins og hún gerði svo ótal oft áður. Engan veginn er þó hægt að útiloka þann möguleika að þessi tilfinningaríka og óörugga leikkona sem stöðugt þjáðist af vanmáttarkennd hafi í stundarörvæntingu ákveðið að deyja. Ef svo var þá hafði hún ekki fyrir því að skilja eftir sig kveðjubréf.

Joe DiMaggio hafði umsjón með útför konunnar sem hann hafði þráð að kvænast að nýju og bauð þangað 30 vinum og ættingjum. Áður en kistunni var lokað beygði Joe DiMaggio sig niður að líkinu, lagði bleika rós í kistuna og grét meðan hann sagði: „Ég elska þig, ástin mín, ég elska þig.“

Joe DiMaggio kvæntist ekki aftur og ræddi aldrei um Monroe við fjölmiðla.

Monroe með eiginmanni sínum númer tvö, Joe DiMaggio. Síðustu mánuðina …
Monroe með eiginmanni sínum númer tvö, Joe DiMaggio. Síðustu mánuðina sem hún lifði höfðu þau tekið saman aftur og hann vildi giftast henni á ný.
Ekkert þráði Monroe meir en að verða móðir en hún …
Ekkert þráði Monroe meir en að verða móðir en hún missti þrisvar fóstur í hjónabandi með Arthur Miller.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú ert að uppgötva nýja hluti og þarft að gefa þér tíma til að njóta þeirra sem best þú getur. Þú átt á hættu að vera misskilinn.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú ert að uppgötva nýja hluti og þarft að gefa þér tíma til að njóta þeirra sem best þú getur. Þú átt á hættu að vera misskilinn.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar