Íslandsdvöl Russells Crowes er farin að styttast í annan endann og leikarinn greinilega farinn að gera upp dvöl sína hér í huganum. Á miðnætti tísti hann hugleiðingar sínar um landið kalda og sparaði ekki lýsingarorðin.
„Mín upplifun af Íslandi: Þetta er mjög sérstakur staður. Dulrænn, krefjandi, heiðarlegur, hömlulaus, notalegur og hrífandi. Ísland rokkar.“
Crowe virðist hafa verið nýkominn úr tveggja klukkustunda líkamsrækt og slökun í World Class og Laugum þegar hann ákvað að setjast við lyklaborðið og dásama landið, því stuttu áður tístir hann:
„Laugar World Class er virkilega góð líkamsræktarstöð. Þegar svo baðstofan og laugarnar bætast við verður þetta frábært. Aðeins örfáir dagar eftir hérna núna.“