148 Íslendingar fóru með smærri hlutverk í kvikmyndinni Noah en tökustaðir myndarinnar hér á landi voru fleiri en áður hefur þekkst við kvikmyndun Hollywood-myndar hér á landi. Kvikmyndagerðarfólkið hefur eytt 3.650 nóttum á íslenskum hótelum síðustu vikurnar og verslað við yfir 300 þjónustuaðila, s.s. bílaleigur, bensínstöðvar, veitingahús o.fl.
Vegna myndarinnar voru leigðir 30 jeppar, 10 sendibílar og 75 bílar meðan á tökum stóð í um fjórar vikur. Um þriðjungur myndarinnar hefur verið tekinn upp hér á landi en nú taka við tökur í New York. Þetta kemur m.a. fram í upplýsingum frá fjölmiðlafulltrúa kvikmyndarinnar.
Darren Aronofsky leikstýrir myndinni en meðal þeirra sem fara með hlutverk og hafa dvalið hér á landi undanfarna daga og vikur eru Russell Crowe og Emma Watson.
„Nú þegar tökum á myndinni er lokið á Íslandi vil ég þakka okkar frábæra íslenska starfsfólki fyrir sína gríðarlega miklu vinnu og öllum Íslendingum fyrir sína miklu gestrisni er þeir buðu Noah velkomna til landsins,“ segir Aronofsky. „Ísland er töfrandi staður og hér höfum við fundið ótrúlega og gríðarlega fjölbreytta tökustaði fyrir myndina. Takk, Ísland. Ég hlakka til að koma aftur.“
Aronofsky kom fyrst hingað til lands til að undirbúa tökurnar í nóvember á síðasta ári. Tökustaðirnir eru mjög margir, m.a. Djúpavatnsleið, Sandvík, Lambhagatjörn, Undirheimanáma við Kleifarvatn, Hafursey og Reynisfjara sem og Raufarhólshellir í nágrenni Víkur og Leirhnjúkar við Mývatn.
Áætlað er að myndin verði frumsýnd í mars árið 2014.