Fer saman að vera partíljón og prins?

Hann er þriðji í erfðaröðinni að krúnunni og er nýjasta dæmið í bresku konungsfjölskyldunni um að það getur verið erfitt að fóta sig í lífinu með silfurskeiðina fasta í kokinu.

Bretar eru steinhissa. Bandaríkjamenn glotta. Konungsfjölskyldan skammast sín. Harry prins hefur enn og aftur misstigið sig - svipt sig klæðum og berað „krúnudjásnið“. Einhverjir vilja meina að væri hann krónprins, ætti að svipta hann titlinum - ekki fötunum.

En Harry er ekki krónprins. Hann er „villta“ barnið í konungsfjölskyldunni. Villtur í hegðun og kannski eilítið áttavilltur líka.

Prinsinn hefur hins vegar ekki hagað sé öðruvísi en flest annað ungt fólk á hans aldri. Hann skemmtir sér fram á nótt, drekkur stundum aðeins of mikið, fer í fíflalega leiki, dansar eins og kjáni og fer í „fatapóker“ - og skíttapar (augljóslega!).

Hann er barn örlaga sinna. Fæddur með hlutverk sem erfitt er að sleppa við að sinna. Samt er hlutverkið óskýrt að mörgu leyti, ekki eins niðurnjörvað og það sem bróðir hans, Vilhjálmur, hefur.

En hann er einnig „fórnarlamb“ hinnar nýju upplýsingaaldar sem kenna má við snjallsíma og samfélagsvefi. Hvergi er skjól fyrir fólki vopnuðu myndavélasímum og fréttir og myndir af gáleysislegum athöfnum fræga fólksins berast forvitnum almenningi um allan heim í því sem næst rauntíma.

Er netkarmyndirnar af Harry birtust í byrjun vikunnar er líklegt að hrollur hafi farið um íbúa Buckingham-hallar. „Aumingja amma hans,“ var það fyrsta sem margir hugsuðu. Amman, Elísabet drottning, hefur að flestra mati um nóg annað að hugsa þessa dagana en bert barnabarn sitt. Eiginmaðurinn hefur glímt við veikindi vikum saman og var aðeins nýverið útskrifaður af sjúkrahúsi.

„Hann var að haupa af sér hornin (e. blowing of some steam),“ sagði í yfirlýsingu hallarinnar, þeirri sömu og staðfesti að myndirnar væru ófalsaðar. Einhverjum finnst þó að Harry ætti að vera orðinn laus við hornin, tæplega þrítugur maðurinn. Þá hafa einnig vaknað spurningar um öryggi hans því hina afdrifaríku helgi í Vegas sást öryggisvörður hans skemmta sér með Harry í sundlauginni.

Harry er þjálfaður þyrluflugmaður í breska hernum. Hann hefur alist upp með fjölmiðlana í bakgarðinum ef svo má segja. Þeir hafa fylgst sérstaklega vel með litla prinsinum - enda snemma ljóst að hann væri „gott fréttaefni“ og efnilegur kandídat í slúðurdálkana.

Er hann var sautján ára viðurkenndi hann að hafa reykt kannabis. Hann varð fljótlega upp úr því fastagestur á skemmtistöðunum í London og ljósmyndir náðust af honum reykjandi, drekkandi og með konur upp á arminn. Flestir höfðu nú bara gaman af því að sjá litla prinsinn verða að ungum manni með öllu því sem fylgir. Sú skoðun breyttist þó nokkuð er myndir birtust af honum í nasistabúningi árið 2005. Búningnum klæddist hann á grímuballi en engu að síður fór það fyrir brjóstið á milljónum manna að sjá hakakrossinn á klæðum unga mannsins.

Harry hafði lengi viljað komast í herinn og ætlaði sér ávallt frama þar. Hakakrossinn hefði getað ógnað þeim framtíðardraumum en allt kom fyrir ekki, prinsinn gekk í herinn og gegndi hermennsku í Afganistan í tíu vikur árið 2008.

En hneykslismálin urðu fleiri. Árið 2009 komst í umferð myndskeið frá árinu 2006 þar sem Harry notar ljót og fordómafull orð. Er óánægjuöldurnar lægði sökkti Harry sér í starf sitt í hernum og sjálfboðastörf. Og Bretar tóku óskabarnið aftur í sátt.

Harry sló í gegn í brúðkaupi bróður síns. Hann þótti sýna mikla háttvísi og mágkonu sinni og systur hennar augljósa væntumþykju. Þá fór hann víða um heim í tilefni af krýningarafmæli ömmu sinnar og þótti alls staðar koma sérlega vel fyrir og bjóða af sér góðan þokka.

Harry hefur lagt sig fram við að betrumbæta ímynd sína um hríð. Bernskubrekin og unglingaveikin áttu að vera að baki og fram stiginn ungur, siðprúður prins. En svo komu nektarmyndirnar og þær hafa sett verulegt strik í reikninginn hvað þetta varðar. Almenningur upplifir að það sé grynnra á partíljóninu en prinsinum.

„Það er tímabært að Harry fullorðnist,“ segir Robert Jobson, dálkahöfundur og rithöfundur sem mikið hefur skrifað um konungsfjölskylduna, þar á meðal bók um Harry.

„Ég veit að hann er ungur, frjáls og ólofaður. Hann er greindur og ætti að hafa lært af mistökum sínum. Hann var glæsilegur fulltrúi ömmu sinnar á Ólympíuleikunum og í opinberri heimsókn á Jamaíka. En það er tímabært að hann fullorðnist og taki Vilhjálm bróður sinn sér til fyrirmyndar.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Hugsanlegt er að þú verðir með hugmynd tengda tekjum og fjármálum á heilanum í dag. Gæfan er þér hliðholl í augnablikinu.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Kathryn Hughes
2
Torill Thorup
3
Steindór Ívarsson
5
Birgitta H. Halldórsdóttir
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Hugsanlegt er að þú verðir með hugmynd tengda tekjum og fjármálum á heilanum í dag. Gæfan er þér hliðholl í augnablikinu.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Kathryn Hughes
2
Torill Thorup
3
Steindór Ívarsson
5
Birgitta H. Halldórsdóttir