Ítalska tímaritið Chi hyggst birta umdeildar myndir af Katrínu hertogaynju af Cambridge, eiginkonu Vilhjálms Bretaprins, en þar er hún einungis klædd bikiníbuxum. Myndirnar voru teknar er hjónin voru í fríi í Suður-Frakklandi.
Chi mun helga 26 síður í næsta tölublaði sínu þessu efni og Alfonso Signorini, útgefandi tímaritsins, sagði í dag að forsíðufyrirsögn blaðsins yrði „Drottningin er nakin“. „Þetta umfjöllunarefni er einstaklega áhugavert vegna þess að þau munu einn góðan veðurdag sitja á valdastóli í Bretlandi,“ sagði Signorini.
Berlusconi gefur blöðin út
Chi er í eigu sama útgáfufyrirtækis og gefur út franska tímaritið Closer, sem fyrst birti myndirnar af Katrínu. Fyrirtækið heitir Mondadori Group og er í eigu Silvios Berlusconis, fyrrverandi forsætisráðherra Ítalíu.
Vilhjálmur og Katrín höfðuðu í dag mál gegn Closer fyrir myndbirtinguna.