Vilhjálmur og Katrín af Cambridge áttu ekki von á öðru en að njóta friðhelgi í franska kastalanum þar sem myndir voru teknar með aðdráttarlinsu af Kate berbrjósta. Fyrstu viðbrögðum ungu hjónanna var lýst sem undrun og vonbrigðum, en tónninn hefur nú harðnað og eru þau sögð íhuga lögsókn.
Búast við miklum gróða
Ungu hjónin voru stödd í Chateau D'Auletm, sumarhúsi í eigu frænda drottningar, þegar myndir voru teknar með stórri aðdráttarlinsu af hertogaynjunni berbrjósta. Breskum blöðum voru boðnar myndirnar til sölu en höfnuðu þeim. Fréttaritari BBC í París segir hins vegar fullvíst að slúðurblaðið Closer, sem keypti myndirnar, muni seljast upp og græða gríðarlega á myndbirtingunni.
Konungsfjölskyldan hefur að sögn BBC gengið úr skugga um það að myndirnar eru ekta, og þau eru ævareið yfir athæfinu. Katrín og Vilhjálmur „hefðu ekki getað farið á afskekktari stað í Frakklandi“ segir talsmaður þeirra. Þau voru „ungt fólk í fríi“ og telja að nú hafi verið gengið of langt.
Minnir á dauða Díönu prinsessu
„Vilhjálmur prins varð vitni að erfiðu sambandi móður sinnar, Díönu, við fjölmiðla. Hann telur að framkoma paparazzi-ljósmyndara í París hafi leitt til dauða hennar. Hann vill vernda eiginkonu sína fyrir aðgangi fréttamanna og ljósmyndara með öllum tiltækum ráðum,“ hefur BBC eftir fréttaritara sínum við hirðina.
Katrín og Vilhjálmur eru stödd í Kúala Lúmpúr og fréttu af nektarmyndunum yfir morgunmatnum í morgun. „Hertoginn og hertogaynjan eru miður sín yfir því að franskt tímarit og ljósmyndari hafi brotið á friðhelgi einkalífs þeirra með svo grófum og fullkomlega óafsakanlegum hætti,“ segir talsmaður þeirra.
„Þetta minnir á versta yfirgang slúðurpressunnar og paparazzi-ljósmyndara gagnvart Díönu prinsessu á meðan hún lifði og geðshræring hertogans og hertogaynjunnar er þeim mun meiri fyrir vikið.“ Lögfræðingar ungu hjónanna eru sagðir íhuga lögsókn gegn blaðinu.