Ítalska slúðurblaðið Chi, sem er í eigu fjölmiðlaveldis Silvios Berlusconis, fyrrverandi forsætisráðherra Ítalíu, kom í dag út í sérstakri útgáfu þar sem myndir af Kate, hertogaynju af Cambridge, berbrjósta eru meðal efnis.
Fyrirsögn á forsíðu Chi í dag er „Drottningin er nakin“ en blaðið birtir þrjár myndir af Kate berbrjósta í dag. Um er að sömu myndir og franska blaðið Closer birti í síðustu viku en það blað er einnig í eigu Berlusconis.
Ritstjóri Chi, Alfonso Signorini, segir myndirnar dæmi um óvenjulega fréttamennsku en í fyrsta skipti sé verðandi drottning Englands sýnd á eðlilegan hátt án inngripa.
Myndirnar voru teknar þar sem Kate var ásamt eiginmanni sínum í sumarleyfi í Suður-Frakklandi.
Árið 2006 reitti ritstjórn Chi marga Breta til reiði vegna birtingar mynda af Díönu prinsessu alvarlega slasaðri eftir slysið. Á myndinni sást þar sem henni var gefið súrefni en hún lést eftir slysið. Jafnframt birti Chi niðurstöðu krufningar.
Meðal þess sem Chi segir í dag um myndirnar af Kate er: Eru brjóstin ekta eða ekki?