Veðmálasíðan Betsson hefur gefið út stuðla varðandi bardaga Gunnars Nelson við Bandaríkjamanninn DeMarques Johnson sem fram fer í Nottingham þann 29. þessa mánaðar. Þrátt fyrir að þetta sé fyrsti UFC bardagi Gunnars er hann talinn sigurstranglegur því á Betsson fær hann stuðulinn 1.55 gegn 2.45 stuðlum á DeMarques.
Veðmálasérfræðingar Betsson virðast því hafa tröllatrú á Gunnari því DeMarques er að keppa sinn tólfta UFC bardaga og er þar af með sjö sigra á bakinu. Upphaflega stóð til að Gunnar myndi keppa við Þjóðverjann Pascal Krauss sem varð að segja sig frá bardaganum vegna meiðsla en Betsson spáði Gunnari einnig sigri í þeim bardaga sem nú er ljóst að ekki fer fram í bráð.
Þrátt fyrir spá Betsson verður viðureign Gunnars engin barnaleikur því DeMarques mun vera mikill reynslubolti í hringnum og er með alls 30 bardaga í blönduðum bardagaíþróttum á ferilskránni, en hann hefur farið með sigur af hólmi í 19 þeirra.