Tom Cruise hefur ákveðið að snúa baki við Vísindakirkjunni en hann hefur verið einn öflugasti fylgismaður hennar um langt skeið. Leikarinn er reiðubúinn að stíga þetta stóra skref í leitinni að lífshamingjunni.
Fréttir um kverkatak Vísindakirkjunnar á Cruise hafa verið háværar um árabil og fullyrt er að vísindatrú og hollusta leikarans við kirkjuna hafi átt stóran þátt í því að fyrrverandi eiginkona hans, Katie Holmes, óskaði eftir skilnaði síðastliðið sumar.
„Tom hefur enn ekki viðurkennt að hann hafi kvatt Vísindakirkjuna fyrir fullt og allt,“ segir heimildamaður breska tímaritsins Star. „En þeir sem til þekkja vita að hann er á förum. Hann hefur fengið nóg af því að láta kirkjuna stjórna lífi sínu.
Tom er smátt og smátt að rjúfa tengslin og hefur fjarlægst þá sem hann umgekkst mest innan kirkjunnar. Hann nýtur þess að verja tíma á ný með gömlu vinunum, sem hafa ekkert með Vísindakirkjuna að gera.
Hann gerir sér loks grein fyrir því að hollusta hans við Vísindakirkjuna hefur ekki þjónað honum persónulega heldur miklu frekar bitnað á honum, bæði í einkalífi og sem opinberri persónu.“
Cruise á að baki þrjú hjónabönd, en hann var áður kvæntur leikkonunum Mimi Rogers og Nicole Kidman. Hjónaband hans og Holmes entist í fimm ár.