Eftir því sem þjóð lætur meira súkkulaði ofan í sig, þeim mun fleiri Nóbelsverðlaunahafar eru meðal hennar miðað við höfðatölu. Líkum er leitt að þessu í grein, sem birtist í nýjasta tölublaði hins virta læknatímarits New England Journal of Medicine sem kom út í dag.
„Andoxunarefni sem finna má í kakóbaunum, grænu tei, rauðvíni og sumum ávöxtum virðist vinna gegn hrörnun í hugsun sem fylgir hækkandi aldri,“ skrifar Franz Messerli, prófessor við Columbia háskóla.
Hann kannaði fylgni á milli súkkulaðineyslu og fjölda Nóbelsverðlauna.
Rannsóknin leiddi í ljós að bein fylgni var á milli súkkulaðiáts og fjölda Nóbelsverðlauna í 23 löndum. Sviss trónir þar á toppnum, bæði hvað varðar neyslu súkkulaðis og hlutfallslegan fjölda Nóbelsverðlaunahafa.
Bandaríkin, Frakkland og Þýskaland eru fyrir miðju listans og Kína, Japan og Brasilía verma botn hans.
Eina undantekningin var Svíþjóð. Hver og einn Svíi borðar 6,4 kíló af súkkulaði á ári hverju og því ættu 32 Svíar að hafa fengið Nóbelsverðlaunin. En í reynd eru þeir einungis 14 talsins.
Messerli bætir við í grein sinni að fyrst og fremst sé um vangaveltur að ræða og nánari rannsókna sé þörf.