Hárlengingar njóta sívaxandi vinsælda, sé tekið mið af þeim stofum sem sprottið hafa upp hér á landi undanfarin ár. Oft er um ekta mannshár að ræða og hefur nokkur umræða verið um uppruna þess í Bretlandi. Hárgreiðslustofur hér á landi sem bjóða upp á hárlengingar segja þær höfða til allra aldurshópa.
Viðskipti með mannshár eru blómleg í Bretlandi og færast sífellt í vöxt. Hárið er notað í hárlengingar og allur gangur er á því hvers vegna fólk, aðallega konur, selur hár sitt. Sumar vantar einfaldlega fé, aðrar selja hár sitt í góðgerðarskyni og enn aðrar eru einfaldlega þreyttar á því að vera með sítt hár og sjá þar tækifæri á að hagnast á því að láta klippa sig.
Í viðtali við breska dagblaðið The Guardian segir Graham Wake, eigandi fyrirtækisins Bloomsbury Wigs sem selur mannshár til hárlenginga og í hárkollur að um 90% af hárinu sé notað til að búa til hárkollur fyrir fólk sem hefur misst hárið. Á síðasta ári var hár, bæði mannshár og hár af dýrum, flutt inn til Bretlands fyrir 38 milljónir punda. Þar jafngildir um 7,8 milljörðum íslenskra króna. Stór hluti þess er notaður í hárlengingar, sem njóta sívaxandi vinsælda í Bretlandi.
En hvaðan kemur allt þetta hár? Í grein The Guardian segir að það komi frá löndum þar sem sítt og náttúrulegt hár þyki prýði, en þar séu konur svo fátækar að þær neyðist til að selja það. Það er í löndum eins og Indlandi, Kína og Austur-Evrópu og þar fari menn um héruð og bjóðist til að kaupa hár kvenna.
Í grein í dagblaðinu The Observer fyrir nokkrum árum var sagt frá því að indverskir karlmenn þvinguðu eiginkonur sínar til að selja hár sitt og börn í fátækrahverfum voru nörruð til að láta raka höfuð sitt í skiptum fyrir leikföng. En mikill munur er á því hvað greitt er fyrir hárið og þeirri upphæð sem viðskiptavinurinn í Bretlandi greiðir fyrir það.
Caroline Cox, sagnfræðingur sem hefur sérhæft sig í sögu hárs, segir þetta dökku hliðina á þessum iðnaði. En þetta sé ekkert nýtt og hafi tíðkast frá Viktoríutímanum. „Það er verið að nýta sér ástand hinna verr settu. Hár verkakvenna prýðir höfuð forréttindastéttarinnar.“
Hún segir þetta líka tengjast bakslagi í jafnréttisbaráttunni. „Þegar breytingar verða á stöðu kvenna eins og t.d. á 3. og 7. áratug síðustu aldar, þá kemst stutt hár í tísku, en þegar lögð er áhersla á hefðbundin kynjahlutverk, þá verða viðbætur eins og gervihár vinsælar.“
Nokkrir aðilar bjóða upp á hárlengingar hér á landi. Sumar bjóða upp á ekta hár, aðrar gervihár. „Það eru til margar gerðir af hárlengingum. Sumar stofur nota óekta hár, sem er selt sem ekta,“ segir Lucy Anna María Sæmundsdóttir, annar af eigendum hárgreiðslustofunnar HairDoo í Kópavogi. Sjálf notar Lucy Anna ekta mannshár við vinnu sína, sem hún flytur inn frá Brasilíu.
Hún segir að hárið sé meðhöndlað með ýmsum efnum og litað áður en hún fær það og það sé síðan fest við hár viðskiptavinarins með litlum silíkonhringjum.
Að sögn Lucyar Önnu er viðskiptavinahópurinn fjölbreyttur og konur á öllum aldri láti bæta við hár sitt af ýmsum ástæðum. Sumar vilji láta lengja hárið, en aðrar vilji láta þykkja það.
Spurð að því hvort hún hafi heyrt gagnrýni um að verið sé að notfæra sér aðstæður kvenna í fátækari löndum með þessu móti, segir hún svo vera. „Því miður fá konurnar alveg örugglega miklu minni peninga fyrir hárið en þeir aðilar sem selja okkur það.“
Á Hársmiðjunni í Kópavogi er einnig boðið upp á hárlengingar. Þar situr Birta Sif Melsteð fyrir svörum og hún segir mikinn gæðamun vera á því hári sem notað sé við hárlengingar hér á landi og verðið sé í samræmi við það. „Við notum asískt hár sem við kaupum af heildverslun, en höfum að öðru leyti litlar upplýsingar um það. Hárið er litað og meðhöndlað áður en við fáum það hingað,“ segir Birta Sif og segir hópinn sem fái hárlengingar síður en svo vera einsleitan; um sé að ræða konur á öllum aldri.