Hópefli í dansinum

mbl.is

Dans kallar fram gleði og auðveldar fólki að létta af ákveðnum hömlum. Í dansbók sinni, Dansgleði, sem væntanleg er á markaðinn skýrir Guðbjörg Arnardóttir danskennari frá ólíkum dansstílum en tengt bókinni er vefsíða þar sem horfa má á danskennslu. Guðbjörg segir salsa og diskó alltaf vera vinsælt og þar hafi tónlistin sitt að segja.

Dansgleði kallast dansbók sem Guðbjörg Arnardóttir danskennari hefur sett saman. Þar er farið yfir helstu tegundir dansa og þeir útskýrðir en bókin er einnig tengd vefsíðunni dansgledi.is þar sem nálgast má kennslu á sjónrænan hátt.

Guðbjörg segir bókina vera hugsaða bæði fyrir kennara og eins fyrir fjölskylduna til að brydda upp á nýjungum í samveru sinni. Það geti t.d. verið skemmtileg tilbreyting frá því að spila borðspil þegar fjölskyldan kemur saman að dansa í staðinn.

Leikurinn er sjálfsprottinn

„Dansinn er gleðigjafi og það má nú alveg lyfta aðeins upp geðheilsu landans. Maður finnur um leið og maður fer að gera eitthvað skemmtilegt hvað það eflir huga manns alveg sama hvað það er. Í einstaka tilfelli getur verið erfitt að fá fólk út á gólf en oftast er auðvelt að fá fólk til að hristast og brosa. En um leið og fólk fer að hlæja losnar líka um ákveðnar hömlur. Leikurinn í eðli okkar mannfólksins er sjálfsprottinn en við leyfum honum dálítið að dala með árunum. Rétt eins og við skömmumst okkur fyrir að vera börn í okkur en það er mikilvægt að halda því ljósi inni í okkur og sleppa taumunum. Ég einbeiti mér að því að kenna fólki auðvelda tækni við að dansa til að sporin flækist nú ekki fyrir og það er líka allt í lagi að gera smá mistök,“ segir Guðbjörg.

Hlátur losar um hömlur

Eitt af lykilorðum bókarinnar er Prófaðu, framkvæmdu og njóttu og hvetur Guðbjörg t.d. hjón til að standa upp frá sjónvarpinu og prófa að dansa jive í smá stund og eiga þannig notalega stund saman. Þá megi líka marsera á ættarmótum til að létta andrúmsloftið og mælt er með því að dansa um stofugólfið til að koma sér í gang fyrst á morgnana.

Guðbjörg segir gamlan draum vera að rætast með útkomu bókarinnar og eftir því sem hún best viti sé þetta í fyrsta sinn sem dansbók sé gefin út hér á landi bæði prentuð og á rafrænu formi. Við gerð bókarinnar fékk Guðbjörg til liðs við sig fagfólk sem kennir ólíkar tegundir dansa og jók þannig fjölbreytnina en sjálf hefur hún aðallega kennt listdans. Í dag segir Guðbjörg salsa vera einnig vinsælast og þá þyki fólki gaman að horfa á argentínskan tangó en nokkuð erfitt sé að læra hann. Þá klikki diskó aldrei fyrir alla aldurshópa og þar hrífi tónlistin fólk með út á gólf.

Hringurinn tákn sameiningar

Meðal þjóðlegra dansa megi nefna skottís og vikivaka en Guðbjörg segir unglinga hafa lúmskt gaman af því að læra íslensku þjóðdansana.

„Það er hópefli í að dansa í hring enda segi ég að hringurinn sé tákn sameiningar. Rétt eins og þegar við sitjum til borðs í hring nær maður augnsambandi við alla í einu. Í byrjun 20. aldar barðist dansarinn og kennarinn Isadora Duncan fyrir rétti barna til að dansa og upplifa list. Hún taldi tilgangslaust að þvinga 12 ára börn til lesturs. Þau áttu að þroskast gegnum ljóð, dans og tónlist. Ég held það sé nokkuð mikið til í þessu þó að börn verði auðvitað líka að læra hefðbundnar námsgreinar. En það mætti örugglega nýta dans enn meira til að brjóta upp skóladaginn, sérstaklega meðal yngri barna sem hafa það ekki í sér að sitja kyrr lengi,“ segir Guðbjörg.

Guðbjörg Arnardóttir danskennari
Guðbjörg Arnardóttir danskennari mbl.is
mbl.is
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú munt fá góða hugmynd um hvernig hægt sé að bæta ákveðna hluti heima. Þú færð eitthvað gefins í dag sem mun kæta þig mikið.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Birgitta H. Halldórsdóttir
2
Torill Thorup
3
Solja Krapu-Kallio
4
Sarah Morgan
5
Sofia Rutbäck Eriksson
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú munt fá góða hugmynd um hvernig hægt sé að bæta ákveðna hluti heima. Þú færð eitthvað gefins í dag sem mun kæta þig mikið.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Birgitta H. Halldórsdóttir
2
Torill Thorup
3
Solja Krapu-Kallio
4
Sarah Morgan
5
Sofia Rutbäck Eriksson