Flestir telja að ð sé séríslenskur stafur en Stefán Pálsson, sagnfræðingur og höfundur bókar um stafinn, segir að svo sé ekki. Stafurinn hafi í raun borist hingað til lands frá Englandi og það sé fyrst og fremst fyrir tilstuðlan erlendra manna að hann skuli nú vera í íslensku máli.
Höfundurinn kynnti bókina í dag fyrir ð-flokknum eða hópi alþingismanna sem hafa ð í nafni sínu. Upprunalega segir Stefán að hugmyndin að ritun bókarinnar hafi komið frá grafískum hönnuðum sem margir þekki vel þau vandræði sem geti skapast af ð-inu í mismunandi leturgerðum.