Lady Gaga er dáðasti furðufugl heims, ef marka má niðurstöður nýrrar netkosningar sem breskt fyrirtæki stóð fyrir. Flestir hinna elskuðu furðufugla eru breskir en nokkrir af öðru þjóðerni slæddust þó með, þ.á m. Björk okkar Guðmundsdóttir sem heimurinn hefur lengi klórað sér í kollinum yfir.
Íslandsvinkonan Lady Gaga ber titilinn vel, hún er m.a. þekkt fyrir sérkennilegan klæðaburð sinn og má ímynda sér að til dæmis kjötkjóllinn hennar alræmdi hafi skilað henni nokkrum atkvæðum, nú eða áberandi höfuðbúnaður sem hún velur sér stundum. Boris Johnson, borgarstjóri London, hreppti annað sætið í netkosningunni um dáðasta furðufuglinn, Ozzy Osbourne er í því þriðja, þá Filippus Bretaprins og Russell Brand í 5. sæti.
Það var breska fyrirtækið Nature Valley sem stóð fyrir netkosningunni, í tengslum við nýja orkustöng sem ber heitið „Sweet and Nutty“. Talsmaður fyrirtækisins segir að Bretar séu veikir fyrir fólki sem stingi svolítið í stúf.
„Fólk sem hegðar sér ekki í samræmi við meðaljóninn. Þess vegna eiga stjörnur eins og Filippus prins, Lady Gaga og Russell Brand sérstakan sess í hjörtum okkar. Oftast kemur sérviska þeirra ekki að sök vegna þess að þau hafa geislandi persónuleika.“
Aðrir sem skiluðu sér á topp 10 listann auk Bjarkar voru m.a. Stephen Fry, Eddie Izzard, Johnny Depp og hin sérvitru hjón Helena Bonham Carter og Tim Burton.