Vaxandi fjöldi fólks leitar nú hjálpar vegna svefnvandamála sem lýsa sér á margan mismunandi hátt, sumpart ansi ótrúlegan. Svefnsérfræðingar eru nú með fleira fólk til meðferðar en nokkru sinni fyrr. Frá þessu er sagt í grein á BBC, vef breska ríkisúrvarpsins.
Þegar betur er að gáð þarf þetta þó ekki að koma á óvart. Um 30% Breta eiga við svefnvandamál af ýmsu tagi að stríða, samkvæmt því sem breska heilbrigðisstofnunin greinir frá. Svefnleysi getur valdið andlegum og líkamlegum vandræðum.
Meðferðarstofur segja að þær fái um 50 nýjar tilvísanir á viku hverri. Þetta er fimmföldun á um áratug og hefur vakið athygli yfirvalda á málaflokknum. En ekki einungis eru tilvísanir vegna svefnvandamála að aukast heldur eru vandamálin orðin ansi sérkennileg.
Fjöldinn allur af fólki tekur farsímann sinn með sér á náttborðið þegar gengið er til náða og á Bretlandi er vaxandi fjöldi fólks farinn að senda smáskilaboð í svefni.
„Það er í raun mjög eðlilegt að fólk geri í svefni það sem það gerir margoft yfir daginn,“ segir dr. Kirstie Anderson, sem rekur svefnheilsustöð í Newcastle á Englandi.
Hún segir að þessi ávani, að endurtaka það sem fólk gerir oft á dag, geti verið frá jafn litlu atriði og að opna eða blikka augum og upp í það að keyra í svefni. Hvað gerist nákvæmlega í heila fólks í slíkum tilvikum er þó ráðgáta fyrir sérfræðinga.
Í flestum tilvikum eru smáskilaboð sem send eru í svefni þó lítt skiljanleg og lítið samhengi í þeim, því þrátt fyrir að fólki sé uppálagt að gera í svefni það sem það gerir dagsdaglega, þá er fólk klaufalegra við slík verk og hvergi nærri jafn nákvæmt, að sögn dr. Anderson.
Óútskýrð tóm matarílát og óhreint eldhús er eitthvað sem þeir sem ganga í svefni verða oft varir við þegar þeir koma til fullrar meðvitundar að morgni. Þetta vandamál er eitt þeirra sem svefnheilsustöðvar eru með til meðferðar.
Til eru dæmi þess að fólk fari margoft að nóttu inn í eldhús, en muni nákvæmlega ekkert eftir því að morgni. Ekki einvörðungu veldur þetta svefnröskun fólks heldur getur þetta í einhverjum tilvikum valdið því að fólk bæti á sig þyngd án þess að ráða mikið við það og það getur valdið fólki bæði andlegri vanlíðan og líkamlegri einnig. Aðrir hafa kannski þó meiri áhyggjur af því að kafna í svefni af völdum matarneyslu.
Dr. Anderson segir að þeir sem gangi í svefni geri oft það sem sem í raun sé til komið af líkamlegri þörf. Til að mynda sé algengt þegar farið er til náða svangur að viðkomandi fari í svefni og fái sér að borða, eða þegar fólk ákveður að fara í megrun eða aðhald að það fari í svefni og nærist.
Dr Chris Idzikowski, sérfræðingur í svefnmálum í Edinborg, segir að Sexsomnia, ástand þar sem fólk stundar kynlíf í svefni, hafi einungis nýverið komið til umræðu meðal almennings. Mjög litlar rannsóknir munu þó hafa verið gerðar á málinu, en æ fleiri tilvik hafa komið upp á yfirborðið að undanförnu.
Vitað er að slíkt ástand er algengara á tímum álags og stress og þegar viðkomandi eru undir áhrifum áfengis eða vímuefna. Til eru dæmi um lítils háttar snertingar og allt upp í samfarir í svefni, sem í sumum tilvikum geta haft alvarlegar afleiðingar.
Dr. Idzikowski segir að til séu dæmi um tilvik þar sem um kynferðislega áreitni er að ræða sem og tilvik sem flokkist til nauðgunar.
Hann segir að tilvik Sexsomniu séu fyrst og fremst þegar fólk er í djúpum svefni. Í slíku ástandi er slökkt á hugarástandi heilans, en sá hluti sem skynjar líkamlegar þarfir á borð við kynlíf sé ennþá starfandi.
„Þetta er eitthvert skyndilegt ástand sem skapast, fólk er ekki með neina meðvitund þegar þetta gerðist,“ sagði dr. Idzikowski.
„Þegar þú ert í djúpum svefni tekur þú engar yfirvegaðar og hugsaðar ákvarðanir. Það veldur mér oft vangaveltum hversu fólk lætur svefnvandamál gerjast árum saman án þess að gera sér grein fyrir því að hægt er að leita sér hjálpar,“ sagði dr. Idzikowski.
Kæfisvefn er æ vaxandi vandamál á Englandi og mun fleiri sækja sér aðstoðar vegna þeirra mála. Oft býr fólk með kæfisvefn við háværar hrotur, en vandamálið er í hálsinum þar sem hálsvöðvar falla saman á nóttinni og valda tilheyrandi þrengslum í öndunarveginum.
Fólk er sofandi og allt í einu er eins og sprengja hafi sprungið innra með því og það vaknar. Þetta er kallað á ensku „exploding head-heilkennið,“ þegar ótrúlegur hávaði myndast skyndilega innra með fólki í svefni.
Til eru dæmi þess að fólk rjúki út í glugga á íbúðum sínum til að kanna hvort sprengja hafi sprungið fyrir utan. Svefnsérfræðingar segja að þetta heilkenni sé afar sjaldgæft. Dr. Anderson segir þó að hún hafi heyrt af nokkrum slíkum tilvikum á undanförnum árum.
„Fólk heyrir rosalegan hávaða þegar það er að ná svefni en uppgötvar svo að það geti ekki hafa verið þegar það kemst að því að enginn annar heyrði hávaðann. Stundum gerist það að auki að fólk sér ljósblossa um leið,“ segir Anderson.